Það er mat sumra þingmanna að ekki sé hægt að treysta því að þingflokkur Miðflokksins standi við samninga um þinglok, einkum vegna þess að flokkurinn breytir ört kröfum sínum í samningaviðræðum. Þetta herma heimildir mbl.is á Alþingi.
Samkvæmt heimildum mbl.is hefur meirihlutinn á Alþingi verið meðal annars reiðubúinn að fallast á kröfu Miðflokksins um að þriðji orkupakkinn verði ræddur í tvo daga í lok ágúst. Það hafi hins vegar ekki dugað þar sem flokkurinn er sakaður um að setja fram nýjar kröfur í hvert sinn sem komið er til móts við kröfur hans.
Þá hafa margir stjórnarliðar átt ágætissamstarf við þingmenn Miðflokksins á yfirstandandi þingi í fleiri málum, en að þessu sinni hafi traust verið rofið og sakar einn heimildarmanna mbl.is Miðflokksmenn um að sýna ekki drengskap í deilunni.
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, sagði í gær að undirritað hafi verið samkomulag um klukkan ellefu í gærkvöldi, en að einn flokkur hafi ekki viljað skrifa undir. Samkvæmt því sem mbl.is kemst næst var um drög að samkomulagi að ræða.