„Nei í sjálfu sér ekki. Það er eðlilegt því E. coli er í þarmaflóru nautgripa og sauðfjár og hluti þeirra getur borið shigatoxín,“ segir Dóra Gunnardóttir, forstöðumaður neytendaverndar Matvælastofnunar, spurð hvort það hafi komið á óvart að shigatoxínmyndandi E.coli (STEC) hafi fundist í kjöti á markaði.
Svokallað sýkingargen E.coli fannst í 30% sýna af íslensku lambakjöti og 11,5% sýna af nautgripakjöti í skimun á kjöti á vegum MAST. Tekin voru sýni úr íslensku og innfluttu nautakjöti og fannst sýkingargenið í 14 sýnum, þar af einu frá Spáni, 11 íslenskum en ekki var vitað um uppruna tveggja sýna.
Bakterían er aðallega á yfirborðinu og því mikilvægt að steikja kjötið vel að utan. Hitinn á að drepa bakteríuna. Þegar kjöt er hakkað getur bakterían borist í allt kjötið og því er mikilvægt að gegnumsteikja hamborgara og ekki borða blóðuga hamborgara. Ávallt þarf að koma í veg fyrir krossmengun þegar kjöt er meðhöndlað.
Dóra tekur fram að neytendur þurfi ekki að óttast heldur brýnir fyrir þeim að meðhöndla kjötið rétt fyrir neyslu eins og bent hefur verið á.
Sýni voru einnig tekin úr svína- og alifuglakjöti. Þau sýni komu mjög vel út en einungis greindist salmonella í einu sýni af innfluttu svínakjöti. „Staðan er mög góð miðað við mörg önnur lönd. Við erum með mjög strangt eftirlit á eldi og slátrun alifugla og svína og það hefur greinilega skilað sér,“ segir Dóra.
Á þessu ári verður haldið áfram að taka sýni af lambakjöti til að fá betri mynd af stöðunni. Í lok árs verður tekin ákvörðun um hvort tilefni þykir að halda áfram eða taka sýni annað hvert ár. „Það getur vel verið að þetta hafi verið til staðar í mörg ár en við vitum ekki. Ef við skoðum það ekki vitum við ekkert,“ segir Dóra.
Skerpa þarf á fyrirbyggjandi aðgerðum í sláturhúsum og kjötvinnslum til að minnka líkur á að STEC berist í kjötið. Hreinleiki gripa skiptir einnig máli og því þarf að reyna að koma í veg fyrir að óhreinum gripum sé slátrað í sláturhúsi.
Við slátrun þarf að huga að því að ekki berist mikil skítur með gripunum inn í sláturhús. „Það er passað upp á þetta alla daga en það má alltaf gera betur. Aðferðir við fláningu skipta máli og einnig hvernig innyflin eru tekin úr skepnunum; að þetta sé gert með þeim hætti að það snerti kjötið sem minnst. Það hefur alltaf verið, svo komið sé í veg fyrir saurmengun. Eftirlitsdýralæknir er viðstaddur slátrun og fylgist með að réttum vinnubrögðum sé beitt,“ segir Dóra.
Freydís Sigurðardóttir, fagsviðsstjóri búfjárafurða hjá Matvælastofnun, tekur í sama streng. Hún segir eftirlitið almennt gott en unnið sé að því að skerpa á reglum. „Það er þegar búið að ákveða ákveðinn hreinleikastuðul á nautgripum sem koma til slátrunar. Hann er tilbúinn en ekki útgefinn en það verður gert fljótlega svo allir séu á sömu blaðsíðu,“ segir Freydís.
Hún segir hreinleikastuðulinn ekki eingöngu vera til bóta þegar dýrin eru leidd til slátrunar heldur sé þetta einnig gert með dýravelferð í huga.
Það verður í höndum sláturleyfishafa að framfylgja reglum um hreinleika nautgripanna. „Þeir eiga að hafna gripnum ef hann er ekki metinn hæfur,“ segir hún. Í þessu samhengi bendir hún á að víða í útlöndum tíðkist að sláturhúsin raki gripina fyrir slátrun ef þeir eru mjög skítugir til að koma í veg fyrir mögulegt smit.
„Við munum ítreka að það sé farið eftir þessum krossmengunarvörnum sem eru fyrir hendi. Nú er ljóst að bakterían er hluti af þarmaflóru sauðfjár og nautgripa og mikilvægt er að framfylgja reglunum,“ segir Freydís.