Íslenskir ferðamenn veiktust á Spáni

Landspítalinn.
Landspítalinn. mbl.is/Hjörtur

Þrír íslenskir ferðamenn úr sömu fjölskyldu sem voru í fríi í Alicante á Spáni í lok maí hafa greinst með chikungunya-sótt á Landspítalanum í Reykjavík.

Fyrst byrjaði 37 ára kona að fá háan hita og beinverki hinn 1. júní og sjö dögum síðar greindist hún með sóttina. Systir konunnar og fimm ára sonur hennar sem höfðu fengið svipuð einkenni hafa einnig fengið sömu greiningu, að því er El País á Spáni greindi frá.

Beðið er eftir niðurstöðu úr öðru prófi til að fá staðfest hvort þriðja systirin hafi einnig greinst með sóttina en hún smitast ekki á milli manna. Ekki er vitað til þess að fleiri tilfelli hafi komið upp. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem fólk smitast af þessum veirusjúkdómi á Spáni.

Embætti landlæknis sendi heilbrigðisyfirvöldum á Spáni erindi á fimmtudaginn vegna málsins.

Moskítófluga af tegundinni Aedes albopictus, einnig þekkt sem tígur-moskítófluga.
Moskítófluga af tegundinni Aedes albopictus, einnig þekkt sem tígur-moskítófluga. Ljósmynd/Wikipedia.org

Chikungunya-sótt berst með svokölluðum tígris-moskítóflugum. Ekkert bóluefni er til við henni og engin sérstök meðferð og því er lögð áhersla á að draga úr sársauka sjúklinga. Helstu einkenni eru hiti, liðverkir, útbrot, eymsli í neðra baki og stífleiki.

Landlæknir á Spáni hefur beðið skordýrafræðinga við Valcencia-háskóla, auk annarra sérfræðinga, að taka sýni og rannsaka málið. Einnig verður athugað hvort ný tilfelli hafi komið upp á heilsugæslustofnunum og á sjúkrahúsinu í Alicante.

Vírusinn er nokkuð útbreiddur í Afríku og Asíu en er sjaldgæfur í Evrópu. Tilfelli hafa þó komið upp á Ítalíu og í Frakklandi.

Að sögn Ignacios López-Goñis, prófessors í örverufræði við háskólann í Navarra, eru loftslagsbreytingar ein af ástæðunum fyrir því að vírusinn hefur greinst á Spáni. „Bara ef hitastigið eykst um nokkrar gráður nægir það fyrir tegundir eins og tígris-moskítófluguna til að ná fótfestu á Spáni,“ sagði hann við El Pais.

Tígris-moskítóflugan sást fyrst á Spáni árið 2004 í bænum San Cugat de Valles í Barcelona.

López-Goñi telur litlar líkur á að sjúkdómurinn breiðist út á Spáni. „Það koma hugsanlega upp fleiri tilfelli en til að svona sjúkdómur breiðist út þurfa margir að smitast. Þær aðstæður eru ekki fyrir hendi,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert