Nýtt Íslandsmet fallið í Esjugöngu

Eftir tæpa sólarhringsgöngu lauk Svanberg, til hægri, við tólftu ferðina …
Eftir tæpa sólarhringsgöngu lauk Svanberg, til hægri, við tólftu ferðina upp og niður Esjuna. Ljósmynd/Facebook

Íslandsmet virðist hafa verið slegið rétt fyrir klukkan fimm í morgun þegar Svanberg Halldórsson nokkur lauk tólftu ferðinni upp Esjuna eftir sólarhringsgöngu. Hann fór upp og niður 12 sinnum, 83,2 kílómetra í heild.

Hann gekk þetta á 23 klukkustundum og 29 mínútum og notaði til þess 17.583 kalóríur, samkvæmt upplýsingum úr úrinu hans. 

Svanberg gekk til góðs og tók við áheitum inn á söfnunarreikning, söfnun sem rann síðan til Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvar fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandandendur þess. 

Svanberg segir frá því á Facebook að fyrir 10 árum hafi hann gengið maraþon upp Esjuna en nú vildi hann bæta um betur. „Í tilefni 10 ára afmælis upprunalegu áskoruninnar þá hef ég ákveðið að gera nýja tilraun við Íslandsmetið dagana 14.-15. júní næstkomandi og ganga minnsta 12 ferðir upp og niður Esjuna í einum rykk. Ég áætla að gangan muni taka u.þ.b. 19 klukkustundir og því um töluvert umfangsmeiri áskorun að ræða en hérna um árið. Ég hef ekki hugmynd um hvort mér takist þetta; en ég skal svo sannarlega gera mitt allra besta, þar til ég klára áskorunina eða lappirnar hreinlega gefa sig!“

Lokatölur:

Á Facebook-síðu Svanbergs má fylgjast með ferlinu frá upphafi. Undir lokin var hann farinn að þreytast. „Afbókið alla tíma hjá mér á morgun. Ég verð upptekinn, við að gera akkúrat ekki rassgat,“ segir Svanberg í myndbandi á Facebook.

Hér er hann á lokametrunum:

mbl.is greindi frá því á sínum tíma þegar hlauparar fóru 11 ferðir upp og niður Esju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert