Verið að kanna hvort fleiri hafi smitast

Smitsjúkdómadeild Landspítalans er í Fossvogi.
Smitsjúkdómadeild Landspítalans er í Fossvogi. mbl.is/Sigurður Bogi

Íslendingarnir þrír sem veiktust af chikungunya-sótt þegar þeir dvöldu í Valencia-héraði á Spáni í maí eru ekki í hættu. Veiran veldur ekki alvarlegum veikindum en í einstaka tilfellum er þó hætta á að til langvarandi liðbólga komi af völdum hennar. 

Verið er að kanna hvort fleiri hafi veikst í sömu ferð en einhverjir þeirra eru staddir í Noregi. Veiran smitast ekki með öðrum hætti en moskítóbiti, þannig að engin hætta er á að hún breiði úr sér hér á landi.

„Fólkið ætti ekki að verða alvarlega veikt,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. „Einkenni veirunnar eru vægur hiti, útbrot og vöðvaverkir eins og margar veirur geta valdið. Í ákveðnum tilfellum getur þetta valdið alvarlegri liðverkjum og í mjög sjaldgæfum tilfellum sýkingu í taugakerfi,“ útskýrir Þórólfur.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.

Engin meðferð er í raun til við veiru af þessum toga, heldur er þess beðið að þetta líði úr sjúklingunum, sem það ætti að gera innan viku eða tveggja. „Við vonumst bara til að þau fái engin langvarandi liðvandamál, sem getur hrjáð fólk sem smitast,“ segir Þórólfur. 

Fyrsta smit á Spáni

Veiran berst aðeins með moskítóflugum, rétt eins Vestur-Nílarveira og Dengue-veira. Þá smitast zika-veiran fyrst og fremst með moskítóflugum. Fréttablaðið greindi frá því í gærkvöldi að tilfellið hefði verið það fyrsta sem greindist á Spáni en Þórólfur áréttar að auðvitað hafi mörg tilfelli komið upp þar í landi þar sem fólk hafði smitast annars staðar og farið svo til Spánar, en tilfelli Íslendinga á Spáni nú hafi hins vegar verið fyrsta staðfesta smitið sem verður innan Spánar. Það er, að einhver sé á Spáni, sé bitinn þar og veikist í kjölfarið.

Og Þórólfur rekur þá þróun til loftslagsbreytinga að einhverju leyti. „Þetta er vafalaust bara afleiðing af hlýnun jarðar,“ segir hann. „Skordýrin færa sig norðar þegar það verður hlýrra.“

Annars hafi smit verið staðfest á Ítalíu og í Frakklandi. Veiran er algengust í Afríku, Asíu og Suður- og Mið-Ameríku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert