Vegagerðin mun á næstu 14 mánuðum flytja höfuðstöðvar sínar frá Borgartúni í Reykjavík í Suðurhraun 3 í Garðabæ. Reginn og framkvæmasýsla ríkisins hafa gert samning um uppbyggingu og leigu á nýjum höfuðstöðvum á þessum stað, en þangað verður einnig flutt þjónustustöð Vegagerðarinnar í Hafnarfirði og aðstaðan sem Vegagerðin hafði í Vesturvör í Kópavogi.
G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir í samtali við mbl.is að málið hafi verið í skoðun í talsverðan tíma. Fyrst fyrir hrun, en í kjölfar hrunsins hafi verið hætt við. Svo fór málið aftur af stað árið 2013 í kjölfar sameiningar samgöngustofnana, þegar hluti Siglingastofnunar fór til Vegagerðarinnar.
Síðasta sumar bauð framkvæmasýslan út verkefnið og var það svo endurtekið í október. Meðal þeirra sem skilaði inn tilboði var Reginn og var niðurstaðan eftir talsverða skoðun að semja við fyrirtækið.
Samningurinn er til 20 ára og felur hann í sér langtímaleigu á 6.000 fermetra skrifstofu og geymsluhúsnæði. Þá er 9.000 fermetra útisvæði á lóðinni. Samkvæmt hugmyndum verður geymsluhúsnæðið á einni hæð en skrifstofubyggingin á þremur hæðum.
Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, segir í samtali við mbl.is að Reginn eigi margar lóðir á þessu svæði, meðal annars Suðurhraun 1 og 3. Nýtt deiluskipulag liggur fyrir á lóðunum og horft er á reitinn sem endurskipulagningaverkefni. Segir hann hugmyndina að taka eldri byggingar og umbreyta þeim og koma í leigu til nýrra aðila. Þannig hafi Suðurhraun 3 undanfarið verið í skammtímaleigu og nýtt í tímabundin verkefni. Sem stendur er þar geymsluhúsnæði sem fataframleiðandinn Icewear hefur til afnota.
Helgi segir að hluti af núverandi húsi við Suðurhraun 3 verði rifinn og nýtt byggt í staðinn. Hluti af núverandi húsi verði þó áfram nýttur. Sem fyrr segir verður nýja húsið samtals 6 þúsund fermetrar.