Björgun og Reykjavíkurborg hafa undirritað samkomulag um að fyrirtækið fái lóð undir starfsemi sína í Álfsnesvík á Álfsnesi, skammt frá urðunarsvæði Sorpu. Skipulagsferli er hafið og jafnframt er unnið að umhverfismati á svæðinu.
Björgun, sem vinnur að dýpkun og uppdælingu steinefna úr sjó, er hætt starfsemi sinni við Sævarhöfða, að því er fram kemur í frétt frá Reykjavíkurborg. „Á mánudaginn tók ég við lyklunum að Björgun, malarvinnslufyrirtækinu við Bryggjuhverfið, sem nú er loks á förum,“ sagði Dagur B. Eggertsson í vikulegum pistli sínum á föstudaginn fyrir rúmri viku. „Núverandi Bryggjuhverfi er ótrúlega fínt en fullbyggt verður Bryggjuhverfið algjörlega frábært!“ bætti borgarstjóri við.
Samkvæmt samningi við Faxaflóahafnir vinnur Björgun að því að ljúka við landfyllingu sem nýtt verður fyrir stækkun Bryggjuhverfisins í Reykjavík og dýpkun innsiglingarrennu að smábátahöfn hverfisins.
Björgun hefur hins vegar ekki starfsleyfi lengur á Sævarhöfða til uppdælingar og vinnslu á efni. Fyrirtækið er enn þá með einhverjar birgðir af steinefnum á athafnasvæðinu sem verða kláraðar á næstunni, að því er fram kemur í fréttinni frá Reykjavíkurborg.
Lóðarvilyrðið sem Reykjavíkurborg hefur veitt Björgun nær til 7,5 hektara lóðar við Álfsnesvík og heimilar byggingu 1.200 fermetra húsnæðis. Það er háð þeim skilyrðum að landnotkun á svæðinu verði skilgreind fyrir iðnaðarstarfsemi með breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og Aðalskipulagi Reykjavíkur sem auglýst verður á næstunni.
Þegar nauðsynlegar breytingar á skipulagi svæðisins hafa verið samþykktar mun borgarráð úthluta Björgun lóð við Álfsnesvík til 40 ára á fyrirhuguðu iðnaðarsvæði. Björgun mun sjá um að móta lóðina í tiltekna hæð og sjá um nauðsynlegar framkvæmdir við mótun hennar.
Björgun mun bera kostnað við landmótun svæðisins, bæði í sjó og á landi, fyllingagerð, grjótvarnir, mön við lóðarmörk, gerð viðlegumannvirkja og dýpkun á siglingarleið.
Björgun hefur verið með aðsetur í Sævarhöfða allt frá árinu 1970. Fram kemur í frétt á heimasíðu fyrirtækisins að efnisvinnsla á Sævarhöfða hafi stöðvast í bili en verið er að afgreiða efnisbirgðir á athafnasvæðinu á meðan þær endast. Búið er að taka niður sandþvottastöð, þ.e. vélasamstæðu sem stóð næst Bryggjuhverfinu. Hún hefur verið flutt í geymslu. „Til skoðunar eru hugmyndir um áframhaldandi starfsemi Björgunar á smærra og afmarkaðra svæði á Sævarhöfða fram að flutningi, en fram að þeim tíma er efnisvinnslan stopp. Vonir standa til að efnisvinnsla á nýju athafnasvæði geti hafist fyrir mitt næsta ár,“ segir í fréttinni á heimasíðu Björgunar.
Björgun og Reykjavíkurborg í samstarfi við Alta ráðgjafafyrirtæki vinna nú hörðum höndum að lokavinnslu allra gagna sem leggja þarf fram til samþykkar á svæðis-, aðal- og deiliskipulaginu, auk umhverfismats framkvæmdarinnar.
Í síðustu viku var skrifað undir samkomulag á milli Faxaflóahafna og Björgunar um frágang í Sævarhöfða og dýpkun að smábátahöfn Bryggjuhverfisins auk undirritunar lóðarvilyrðisins. Lárus Dagur Pálsson, framkvæmdastjóri Björgunar, og Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, rituðu undir. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi og stjórnarformaður Faxaflóahafna, voru vottar að undirrituninni.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. júní.