11 sem verða 100 á árinu saman í veislu

Það er ekki á hverjum degi sem 11 manneskjur sem verða hundrað ára á árinu komi saman í gleðskap en það var raunin á Hrafnistu í dag og tilefnið var 75 ára afmæli lýðveldisins. Alls verða 25 Íslendingar 100 ára gamlir á árinu og hefur þeim fjölgað verulega sem ná þessum aldri.

Þetta var í fyrsta sinn sem Hrafnista býður landsmönnum til 100 ára afmælisveislu ásamt forseta Íslands og er ætlunin að þetta verði árlegur viðburður. Undirbúiningur var í samstarfi við Jónas Ragnarsson sem heldur úti vefsíðu um langlífa Íslendinga, haldgóð hjónabönd, stóra systkinahópa og fleira. 

Að hans sögn eru 45 núlifandi Íslendingar sem hafa náð 100 ára aldri en fyrir 50 árum voru þeir sex og fyrir 100 árum var enginn sem hafði náð þeim aldri.

mbl.is var á Hrafnistu í Hafnarfirði í dag þar sem fjölmargir gestir voru með forsetahjónin fremst í flokki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert