Dagfinnur Stefánsson, flugstjóri og einn af stofnendum Loftleiða, lést á sunnudag, 93 ára að aldri.
Dagfinnur fæddist 22. nóvember 1925, en foreldrar hans voru Stefán Ingimar Dagfinnsson skipstjóri og Júníana Stefánsdóttir húsmóðir. Hann fór utan til flugnáms í Spartan School of Aeronautics í Tulsa í Oklahomaríki árið 1945 og hlaut atvinnuflugmannsréttindi 1946.
Dagfinnur var frumkvöðull í íslenskri flugsögu og flaug vel yfir 30.000 flugtíma á ævi sinni. Hann starfaði sem flugstjóri fyrir meðal annars Loftleiðir, síðar Flugleiðir og Air Bahama og Cargolux, dótturfélag Loftleiða, en Dagfinnur var flugstjóri í fyrstu ferð þess félags.
Dagfinnur flaug víða um heim og sinnti meðal annars sjálfboðastarfi sem flugstjóri fyrir hjálparsamtökin Orbis, sem eru alþjóðleg hjálparsamtök á sviði augnlækninga og fljúga til þróunarlanda á sérútbúnni þotu og veita fátækum ókeypis lækningar við augnsjúkdómum. Hann flaug einnig önnur hjálpartengd flug svo sem með matvæli til Biafra.
Þá átti Dagfinnur hugmyndina að því að nota DC3-vél Flugfélags Íslands, sem síðar var nefnd Páll Sveinsson, til landgræðslu, eftir að vélin hafði lokið hlutverki sínu sem farþegavél.
Dagfinnur sat í stjórnum ýmissa félaga og nefnda, svo sem Loftleiða, Flugleiða, Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Lífeyrissjóðs flugmanna. Þá var hann þátttakandi í samstarfi nefndar og verkfræðistofu JC Buckley, sem skipuð var af ráðherra 1960, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að bestu aðstæður nýs flugvallar væru á Álftanesi, sem var einnig meðal valkosta Rögnunefndarinnar 2013-2015. Dagfinnur var í áhöfn Geysis, sem brotlenti á Bárðarbungu 1950, en hann var sá síðasti úr áhöfninni sem enn var á lífi.
Dagfinnur var sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu þann 17. júní 2014 fyrir brautryðjandastörf á vettvangi flug- og samgöngumála.
Börn Dagfinns eru Inga Björk, Stefán og Leifur Björn, barnabörn eru fimm og barnabarnabörn þrjú.