EES „aðlögunarsamningur inn í ESB“

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Ölfus.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Ölfus. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Hvað sem hver segir þá er EES í raun ekki viðskiptasamningur eins og svo oft er haldið fram hér á landi.  Viðskipti eru forsenda þeirrar samþættingar og samruna sem stefnt er að,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Ölfus, á vefsíðu sinni í dag þar sem hann gerir að umtalsefni sínu eðli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES).

Elliði segir ljóst að EES-samningurinn hafi reynst Íslendingum vel og feli meðal annars í sér aðgengi að innri markaði Evrópusambandsins. Hins vegar eigi samningurinn sé fleiri hliðar.

„Sá hluti hans sem snýr að aðlögun að ESB er að verða meira áberandi eftir því sem tímanum fram vindur. Í ljós er að koma, það sem ætíð lá í augum uppi, að samningurinn er hreinlega undirbúningur að inngöngu í ESB. Hugsaður þannig af ESB, hannaður þannig af sambandinu og undirritaður af fulltrúum okkar,“ segir hann.

Vísar Elliði í því sambandi meðal annars til umfjöllunar á vefsíðu þings Evrópusambandsins þar sem komi fram að EES-samningurinn hafi verið „hannaður sem eins konar biðstofa fyrir hlutlaus EFTA-ríki.“ Umræða hér á landi um EES-samninginn hafi nær eingöngu verið um efnahagslegar hliðar hans en minna um að samningurinn sé í raun „aðlögunarsamningur inn í ESB.“

Stormað í fang yfirþjóðlegs valds á fölskum forsendum

Elliði vitnar í þessum sambandi í orð Martins Selmayr, framkvæmdastjóra framkvæmdastjórnar ESB, sem hafi lýst eðli EES-samningsins svo á Twitter-síðu: „Samningurinn er árangursríkt módel fyrir efnahagslegan samruna milli ESB og nágrannaríkja sambandsins.“

Þannig bendir Elliði á að ESB skilgreini ekki EES-samninginn sem viðskiptasamning heldur sem „association agreement“ sem liggi beinast við að þýða sem sambandssamning. Rök séu bæði með og á móti inngöngu í sambandið en hins vegar sé ekki hægt að þola það „að storma þjóðinni í fang yfirþjóðlegs valds á fölskum forsendum.“

Þá segir Elliði að lokum að það þurfi „sterk bein, samstöðu og útsjónarsemi ef takast á að tryggja hagsmuni Íslendinga í alþjóðasamstarfi án þess að fórna þeim mikilvægu réttindum sem fólgin eru í því að vera sjálfstætt þjóðríki. Þessa dagana eru margir að spyrja sig að því hvaða fólk og hvaða flokkar séu líklegastir til þess.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert