Fagna lögum um kynrænt sjálfræði

Daníel Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna ’78.
Daníel Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna ’78. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sam­tök­in ‘78, Trans Ísland og In­ter­sex Ísland fagna lög­um um kyn­rænt sjálfræði sem samþykkt voru á Alþingi í dag af öll­um hjarta. Lög­in fela í sér ákaf­lega mik­il­væga rétt­ar­bót fyr­ir trans og in­ter­sex fólk á Íslandi.

Þetta kem­ur fram í yf­ir­lýs­ingu Sam­tak­anna ’78, Trans Ísland og In­ter­sex Ísland vegna samþykkt­ar frum­varps um kyn­rænt sjálfræði.

Við gleðjumst yfir því að umræðan sem fram hef­ur farið á Alþingi, bæði á vett­vangi alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd­ar sem og á þing­fund­um, hef­ur að mestu verið mál­efna­leg og góð,“ kem­ur fram í yf­ir­lýs­ing­unni. 45 þing­menn samþykktu lög­in en þrír sátu hjá.

Bent er á að meg­in­breyt­ing­ar sem í lög­un­um fel­ast séu tvær. Í fyrsta lagi verður nú hægt að skrá sig með hlut­lausri kyn­skrán­ingu, sem sagt hvorki sem karl né kona. Það verður táknað með X á skil­ríkj­um.

Seinni breyt­ing­in er sú að fólki verður frjálst að gera breyt­ing­ar á kyn­skrán­ingu sinni án þess að þurfa fyrst grein­ingu á svo­kölluðum „kynátt­un­ar­vanda“ af hendi heil­brigðis­kerf­is­ins með til­heyr­andi biðtíma og óvissu. Börn und­ir 18 ára aldri munu jafn­framt geta skráð sitt rétta kyn og nafn í Þjóðskrá með samþykki for­eldra. Ef samþykki for­eldra ligg­ur ekki fyr­ir geta þau leitað til sér­stakr­ar sér­fræðinefnd­ar.

Alþingi missti af gullnu tæki­færi

Þrátt fyr­ir ánægju með lög­in kem­ur fram í yf­ir­lýs­ing­unni að Alþingi hafi misst af tæki­færi til þess að smíða framúrsk­ar­andi lög­gjöf í mál­efn­um hinseg­in fólks. „Við vilj­um koma á fram­færi von­brigðum með ákveðna hluta lag­anna sem við telj­um að hefðu mátt bet­ur fara,“ kem­ur fram í yf­ir­lýs­ing­unni.

Í fyrsta lagi ber að nefna mál­efni in­ter­sex barna, sem hljóta ekki þegar í stað vernd gegn þeim mann­rétt­inda­brot­um sem ónauðsyn­leg og óaft­ur­kræf inn­grip í lík­ama þeirra eru,“ seg­ir í yf­ir­lýs­ing­unni. Fé­lög­in treysta því að niður­stöður nefnd­ar, sem kveðið er á um í bráðabirgðaákvæði lag­anna, skili fljótt og ör­ugg­lega til­lög­um að nýrri lög­gjöf sem veiti þess­um hópi loks­ins laga­lega vernd.

Einnig má nefna aðrar breyt­ing­ar sem gerðar voru í meðferð máls­ins, t.d. þá ákvörðun að fjar­lægja lög­bundið sam­ráð við hags­muna­fé­lög og hækk­un ald­urstak­marks fyr­ir nafna- og kyn­skrán­ing­ar­breyt­ingu án aðkomu for­eldra eða sér­fræðinefnd­ar, en í frum­varp­inu sem lagt var fram til fyrstu umræðu var miðað við frjálsa kyn­skrán­ingu frá 15 ára aldri.

Fé­lög­in segja enn ým­is­legt sem þurfi að bæta varðandi rétt­ar­stöðu hinseg­in fólks hér á landi. Von­ir standi til að á næstu árum verði Ísland í far­ar­broddi þegar kem­ur að rétt­ar­stöðu alls hinseg­in fólks.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert