Fagna lögum um kynrænt sjálfræði

Daníel Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna ’78.
Daníel Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna ’78. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samtökin ‘78, Trans Ísland og Intersex Ísland fagna lögum um kynrænt sjálfræði sem samþykkt voru á Alþingi í dag af öllum hjarta. Lögin fela í sér ákaflega mikilvæga réttarbót fyrir trans og intersex fólk á Íslandi.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu Samtakanna ’78, Trans Ísland og Intersex Ísland vegna samþykktar frumvarps um kynrænt sjálfræði.

Við gleðjumst yfir því að umræðan sem fram hefur farið á Alþingi, bæði á vettvangi allsherjar- og menntamálanefndar sem og á þingfundum, hefur að mestu verið málefnaleg og góð,“ kemur fram í yfirlýsingunni. 45 þingmenn samþykktu lögin en þrír sátu hjá.

Bent er á að meginbreytingar sem í lögunum felast séu tvær. Í fyrsta lagi verður nú hægt að skrá sig með hlutlausri kynskráningu, sem sagt hvorki sem karl né kona. Það verður táknað með X á skilríkjum.

Seinni breytingin er sú að fólki verður frjálst að gera breytingar á kynskráningu sinni án þess að þurfa fyrst greiningu á svokölluðum „kynáttunarvanda“ af hendi heilbrigðiskerfisins með tilheyrandi biðtíma og óvissu. Börn undir 18 ára aldri munu jafnframt geta skráð sitt rétta kyn og nafn í Þjóðskrá með samþykki foreldra. Ef samþykki foreldra liggur ekki fyrir geta þau leitað til sérstakrar sérfræðinefndar.

Alþingi missti af gullnu tækifæri

Þrátt fyrir ánægju með lögin kemur fram í yfirlýsingunni að Alþingi hafi misst af tækifæri til þess að smíða framúrskarandi löggjöf í málefnum hinsegin fólks. „Við viljum koma á framfæri vonbrigðum með ákveðna hluta laganna sem við teljum að hefðu mátt betur fara,“ kemur fram í yfirlýsingunni.

Í fyrsta lagi ber að nefna málefni intersex barna, sem hljóta ekki þegar í stað vernd gegn þeim mannréttindabrotum sem ónauðsynleg og óafturkræf inngrip í líkama þeirra eru,“ segir í yfirlýsingunni. Félögin treysta því að niðurstöður nefndar, sem kveðið er á um í bráðabirgðaákvæði laganna, skili fljótt og örugglega tillögum að nýrri löggjöf sem veiti þessum hópi loksins lagalega vernd.

Einnig má nefna aðrar breytingar sem gerðar voru í meðferð málsins, t.d. þá ákvörðun að fjarlægja lögbundið samráð við hagsmunafélög og hækkun aldurstakmarks fyrir nafna- og kynskráningarbreytingu án aðkomu foreldra eða sérfræðinefndar, en í frumvarpinu sem lagt var fram til fyrstu umræðu var miðað við frjálsa kynskráningu frá 15 ára aldri.

Félögin segja enn ýmislegt sem þurfi að bæta varðandi réttarstöðu hinsegin fólks hér á landi. Vonir standi til að á næstu árum verði Ísland í fararbroddi þegar kemur að réttarstöðu alls hinsegin fólks.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert