Hætta að fljúga til Tampa

mbl.is/Eggert

Icelandair hefur hætt áætlunarflugi til og frá Tampa-flugvelli í Flórída en flugfélagið hóf áætlunarflug til borgarinnar árið 2017. Í fyrstu var flogið þangað tvisvar í viku en í fyrra var bætt við og flogið á milli Íslands og Tampa fjórum sinnum í viku.

Fjallað er um þetta í fjölmiðlum í Tampa en Icelandair tilkynnti flugvallaryfirvöldum um þessa breytingu í síðasta mánuði. Mjög lítið hlutfall þeirra farþega sem lenda á Tampa-flugvelli eru á vegum Icelandair. 

Í fyrra flutti Icelandair 24.921 farþega til Tampa en beina flugið skapaði 259 störf á svæðinu og efnhagsleg áhrif þess námu 14,2 milljónum Bandaríkjadala, segir í frétt Tampa Bay Business Journal.

Tampa Bay Times fjallar einnig um málið í gær og vísar í ummæli svæðisstjóra Icelandair í Norður-Ameríku sem átti vart orð til að lýsa ánægju sinni með fjölgun flugferða milli Tampa og Keflavík í fyrra. Átti hann ekki von á öðru en að samstarfið myndi vara árum saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert