Kynrænt sjálfræði lögfest

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/​Hari

Lagafrumvarp Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, um kynrænt sjálfræði var samþykkt á Alþingi í dag. Með samþykkt laganna er staðfestur með lögum réttur einstaklings til að breyta opinberri kynskráningu sinni í samræmi við eigin upplifun og án þess að þurfa að sæta skilyrðum um sjúkdómsgreiningu og læknismeðferð. 

45 þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpinu en þrír sátu hjá.

Frumvarpið miðar að því að virða og styrkja sjálfsákvörðunarrétt hvers einstaklings þar sem eigin skilningur á kynvitund er lagður til grundvallar ákvarðanatöku varðandi opinbera skráningu, enda séu aðrir ekki betur til þess bærir.

Einnig er lögunum ætlað að standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi og verður nú skipaður starfshópur til að tryggja réttarstöðu barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. 

Til þess að bæta réttindi fólks í raun og veru þarf pólitískt þor og pólitískan vilja. Réttindi fólks eru nefnilega því miður ekki sjálfsögð þótt árin líði eins og við sjáum þegar við horfum á stöðu mannréttinda á alþjóðavettvangi,“ er haft eftir Katrínu Jakobsdóttur, á vef Stjórnarráðsins, vegna nýsamþykktra laga.

„Lög um kynrænt sjálfræði fela í sér mikilvægar breytingar á réttarstöðu hinsegin fólks og með samþykkt laganna skipar Íslands sér í fremstu röð á alþjóðavísu. Mín von er að með samþykkt þessara laga muni þörf umræða vakna í samfélaginu um það hvað þetta merkir og mikilvægi þess að tryggja mannréttindi allra hópa samfélagsins,“ er enn fremur haft eftir Katrínu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka