Forstöðumaður Flugakademíu Keilis, Rúnar Árnason, fundaði með flugkennurum Keilis í morgun, sem hingað til hafa unnið sem verktakar. Að sögn Rúnars fóru menn sáttir út af fundinum og samtal mbl.is við aðra á þessum vettvangi, meðal annars starfsmenn, staðfestir það.
„Við fórum yfir þetta með okkar fólki, hvernig næstu vikur verða, og ég skildi fundinn þannig að menn væru sáttir með niðurstöðuna,“ segir Rúnar í samtali við mbl.is.
Aðdragandinn að fundinum var sá að á fimmtudaginn var hafði Rúnar sent verktökunum bréf þess efnis að samfara samruna Flugakademíunnar við Flugskóla Íslands yrði starfsmönnum gert að gangast undir kjarasamning. Þetta vakti óánægju einhverra verktaka, svo mikla raunar, að sumir þeirra lögðu niður störf þar til á fundinum í morgun.
Í sumum tilvikum eiga laun eftir að lækka, eins og var áhyggjuefni manna. Spurður um það segir Snorri Páll Snorrason skólastjóri Flugakademíunnar: „Samningar við verktaka voru í evrum og haldast óbreyttir fyrir utan að greitt er í íslenskum krónum í stað evra og var miðað við meðalgengi í þeim útreikningum í stað núverandi gengis. Meðalgengi síðustu tveggja ára er lægra en núverandi gengi og var það ein ástæðan fyrir að menn vildu hittast, en við teljum að menn séu almennt sáttir með útkomuna.“
Á fundinum á sem sé að hafa náðst sátt í málinu, enda var það að einhverju leyti aðeins skortur á haldgóðum skýringum sem menn voru ósáttir við. „Maður hefði viljað gefa þessu aðeins meiri tíma fyrir helgi og senda út aðeins betri upplýsingar með þessu svo að fólk færi ekki í kerfi,“ segir Snorri Páll Snorrason skólastjóri Flugakademíunnar í samtali við mbl.is.
Að loknum fundinum segir Snorri Páll að hafi ríkt almenn sátt „og allir verið tilbúnir í slaginn“ í sumar. Hann sendi þá einnig út bréf síðdegis til starfsmanna og nemenda við skólann þar sem beðist var afsökunar á seinagangi við upplýsingagjöf í kringum breytingarnar. Sá seinagangur segir þar að hafi stafað af önnum en mikið var um að vera um helgina.
Þar biðst Snorri innilegrar afsökunar á því ef fréttirnar af breytingunum höfðu áhrif á kennsluna, ollu afbókunum eða óþarfa áhyggjum síðustu daga. Ekki hafi verið ætlunin að þetta færi á flug.