Ljúka skýrslutökum í vikunni

Í flugslysinu við Múlakot 9. júní sl. létust þrír og …
Í flugslysinu við Múlakot 9. júní sl. létust þrír og tveir voru fluttir alvarlega slasaðir á Landspítalann.

Lögreglan á Suðurlandi áformar að ljúka skýrslutökum vegna flugslyssins við Múlakot 9. júní síðastliðinn í þessari viku, en skoðun lögreglu á flaki flugvélarinnar sem hrapaði við flugbrautina í Múlakoti er lokið. Hjón og sonur þeirra létust í slysinu, en annar sonur þeirra og ung kona voru flutt alvarlega slösuð á Landspítalann í Reykjavík.

„Rannsóknin gengur vel í sjálfu sér,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Hvolsvelli, í samtali við mbl.is. „Við höfum ekki talað við alla, en það klárast væntanlega í þessari viku,“ segir hann. Vegna slyssins þarf lögregla að ræða við vel á annan tug manna. Aðspurður segir Sveinn að rannsókninni ljúki líklega á næstu vikum, en skýrslutökur eru meginhluti rannsóknarinnar. „Við skoðum flugvélina líka og okkar skoðun er lokið á henni,“ segir hann.

Gefa sér þrjár vikur til að afla gagna

Auk lögreglunnar á Suðurlandi sem annast hefðbundna lögreglurannsókn á slysinu, annast rannsóknarnefnd samgönguslysa sjálfstæða rannsókn með það fyrir augum að sambærileg atvik hendi ekki aftur.

Þorkell Ágústsson, rannsóknarstjóri flugsviðs rannsóknarnefndar samgönguslysa, segir að nefndin gefi sér u.þ.b. þrjár vikur til þess að afla gagna í málinu. Skýrslutökum vegna málsins er ekki lokið og rannsókn á flaki flugvélarinnar stendur enn yfir.

„Rannsókninni miðar ágætlega. Við erum enn í þeim fasa að afla upplýsinga. Ég veit ekki hve langan tíma það mun taka,“ segir Þorkell. Lengra mun síðan líða þar til endanleg niðurstaða rannsóknarinnar liggur fyrir.

Spurður hvort rannsóknarnefndin hafi einhverja mynd af því sem gæti hafa gerst í Múlakoti 9. júní, segir Þorkell að of snemmt sé að segja til um það að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert