Heildarverðmæti vegna sölu á hljóðritaðri tónlist á Íslandi árið 2018 var rúmar 663 milljónir króna og hefur ekki verið hærra síðan árið 2007 en hæst náði tónlistarsalan árið 2005. Verulegur stígandi hefur verið í sölunni undanfarin tvö ár eftir nær samfelldan samdrátt í tíu ár þar á undan. Með tilkomu áskriftarveitunnar Spotify á Íslandi hefur salan aukist aftur til muna. Þetta kemur fram í markaðsskýrslu upplagseftirlits árið 2018 sem unnin var fyrir Félag hljómplötuframleiðenda í apríl síðastliðnum.
Sala íslenskra hljómplatna var um það bil 60% af heildarsölu hljómplatna. Fellur útgáfa hluta innlendra listamanna undir sölu erlendra hljómplatna og hlutdeild íslenskra listamanna því raunar enn hærri en þessar tölur sína.
Þróun sl. 20 ára hefur verið sú að íslensk tónlist var um 30% sölunnar árið 1999, og lengi vel þar á undan, en jók síðan mjög hlutdeild sína á næstu árum og reis hæst í ríflega 80% heildarsölunnar árið 2012. Þar fór saman bæði veruleg minnkun á sölu erlendrar tónlistar og gríðarleg aukning á sölu þeirrar íslensku. Síðan þá hefur dregið saman milli innlendrar og erlendrar tónlistarsölu.
Tónlistarveitan Tonlist.is var sett á laggirnar árið 2004 en náði aldrei að leika mjög veigamikið hlutverk á íslenskum tónlistarmarkaði. Með opnun Spotify á Íslandi árið 2013 byrjaði sýnileg heildarmynd tónlistarneyslunnar að gjörbreytast og færast nær því jafnvægi sem ríkt milli innlendrar og erlendrar tónlistar fyrir tíma internetsins. Frá 2014 til 2018 hefur velta Spotify á Íslandi nærri fimmfaldast með tilheyrandi tekjuaukningu tónlistarrétthafa en langstærstur hluti þessara tekna fer þó til erlendra aðila.
Samanlagðar tekjur íslenskra tónlistarrétthafa af plötusölu og streymi árið 2018 hækkuðu lítillega frá árinu 2017 en það er í fyrsta sinn í sjö ár sem slík hækkun á sér stað milli ára.