Systir Sigmundar Davíðs sest á þing

Nanna Margrét og Sigmundur Davíð Gunnlaugsbörn sitja nú saman á …
Nanna Margrét og Sigmundur Davíð Gunnlaugsbörn sitja nú saman á Alþingi. Ljósmynd/Samsett

Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, varaþingmaður Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi, tók sæti á Alþingi í fyrsta sinn er þingfundur hófst kl. 13:30, en hún kemur inn í stað Gunnars Braga Sveinssonar sem er fjarverandi. Nanna Margrét er systir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins.

Nanna Margrét hefur setið í stjórn Isavia frá því í fyrra, en hún starfar einnig sem fjárfestingastjóri Hafbliks fjárfestingafélags. Hún var í 4. sæti á framboðslista Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir síðustu kosningar, en Gunnar Bragi er eini þingmaður flokksins í kjördæminu og hún því þriðji varamaður.

Fleiri dæmi eru um að systkini hafi setið saman á Alþingi. Björn Bjarnason og Valgerður Bjarnadóttir sátu um hríð saman á þingi fyrir Sjálfstæðisflokk annars vegar og Samfylkingu hins vegar.

Katrín Ásgrímsdóttir tók einnig sæti sem varaþingmaður Framsóknarflokksins er bróðir hennar Halldór Ásgrímsson var forsætisráðherra og formaður Framsóknar og þau Ingibjörg Pálmadóttir og Ísólfur Gylfi Pálmason sátu einnig samtímis á þingi fyrir Framsóknarflokk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert