Uppbygging baðlóns í Hveradölum á Hellisheiði gæti hafist á næsta ári að loknu umhverfismati að sögn Þóris Garðarssonar, stjórnarformanns Gray Line, en Skipulagsstofnun hefur nú til kynningar tillögu að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.
Samkvæmt tillögunni er ráðgert að 600 þúsund gestir heimsæki Hveradali fyrsta heila starfsárið eftir uppbyggingu ferðaþjónustunnar í Hveradölum og að meirihluti þeirra fari í lónið sjálft sem verður 8.500 fermetrar að flatarmáli.
Þá er áformuð viðbygging við skíðaskálann í Hveradölum, uppsetning skíðalyftu og bygging gróðurhúss og þjónustuhúss fyrir ferðafólk auk bílastæða og gönguleiða um svæðið, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.