„Þetta er krefjandi og viðamikið brautryðjanda verkefni og mikilvægt að allir leggist á eitt. Það lýsir metnað stóriðjunnar á Íslandi að við séum hérna saman komin til að undirrita viljayfirlýsingu um að gera betur,“ sagði Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan við undirritun viljayfirlýsingar stjórnvalda, stóriðjunnar og Orkuveitu Reykjavíkur um kolefnishreinsun og -bindingu á Íslandi.
Undirritunin fór fram í dag í Ráðherrabústaðnum og var „CarbFix“ aðferð Orkuveitu Reykjavíkur í brennidepli.
„Við erum að reyna að finna íslenskt orð yfir CarbFix, er það kannski gaströll?“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra eftir að Rannveig líkti umbreytingu gassins í stein við tröll sem verður sólinni að bráð, en aðferðin hefur einnig verið þekkt sem gas í grjót- aðferðin.
Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, sagði í ávarpi sínu við undirritunina að aðferðin væri bæði ódýr og örugg og kosti ekki meira kolefniskvóti og það sé því borðliggjandi fyrir íslenska stóriðju að eyða þá fremur fjármagni í kolefnishreinsun en í kvóta.
„Þetta segir okkur að vísindi borga sig. Peningi sem varið er í vísindi og þróun er ekki kastað á glæ. Þetta er eina aðferð sinna tegundar og alveg einstök á heimsvísu,“ sagði Bjarni, en aðferðin er hugarsmíð OR, Háskóla Íslands og annarra erlendra aðila.
OR hefur nú í fimm ár unnið að kolefnishreinsun við Hellisheiðarvirkjun og hefur árangurinn farið fram úr væntingum að sögn Bjarna.
„Undir Hellisheiða-virkjun er mjög ungt basalt og í því er mikið af sprungum eða eins og loftbólum. Við tökum gasstrókinn úr virkjuninni og hreinsum úr honum með einfaldri aðferð allan koltvísýring og brennisteinsefni, en þessar lofttegundir hafa þann eiginleika að leysast upp í vatni.
„Þannig að við hreinsum loftið og undir þrýsting dælum við þessu niður í 800 metra dýpi þar sem þetta streymir út í bergið. Það vill svo skemmtilega til að efnafræðin í basaltinu hentar svo vel þannig að koltvísýringurinn verður að kalsíti og brennisteinsvetnið verður að glópagulli.
„Þegar þetta er orðið að steini er það fast í berginu um aldur og ævi og er þar með úr sögunni. Það er svo mikið rúmmál í berginu á Íslandi að við getum losað okkur við allan brennistein og koltvísýring frá Hellisheiðavirkjun um ókomna tíð,“ segir Bjarni, en í dag hreinar lofhreinsistöðin við Hellisheiðarvirkjun um 75% af brennisteinsefnum og koltvísýringi frá virkjuninni.
Nú hefur OR tekið ákvörðun um að stækka lofthreinsistöðina svo að hreinsa megi virkjunina að fullu á næstu árum.
„Þá verður hún fyrsta og eina jarðhitavirkjun í heimi sem er sporlaus. Hún megnar ekki í loft, hún mengar ekki á jörðu, hún mengar ekki í grunnvatn. Við munum ná þessu markmiði innan nokkra ára og tæknin er búin að sanna sig að fullu. Þessi stöð malar eins og köttur allan sólahringinn og slær aldrei feilpúst og kostnaðurinn er mjög lítill. Við erum í raun búin að spara Orkuveitu Reykjavíkur um 13 milljarða króna með þessari aðferð. Við getum sagt með sanni að vísindin borgi sig.“
Samkvæmt viljayfirlýsingunni verður rannsakað til hlítar hvort að CarbFix, eða gaströlla-aðferðin, geti orðið tæknilega og fjárhagslega raunhæfur kostur til þess að draga úr losun koltvísýrings frá stóriðju á íslandi. Þá munu fyrirtækin sem að yfirlýsingunni standa, leita leiða til að verða kolefnishlutlaus árið 2040, líkt og Hellisheiðarvirkjun mun verða fyrst allra virkjana í heimi á næstu árum.
„Við vitum ekki hvernig mun ganga að nota þessa aðferð í stóriðjunni, en viljayfirlýsingin sem skrifað var undir í dag snýst um að finna út úr því. Þetta er mjög spennandi þróunarverkefni og þetta er eins konar stöðugjald fyrir carbfix aðferðina eða gas í grjót aðferðina og viðurkenning stjórnvalda og stóriðjunnar á að þetta sé spennandi verkefni. Þetta er mikill gleðidagur,“ segir Bjarni.
Bjarni segir mikilvægt að taka eitt skref í einu í átt að kolefnishlutleysi stóriðjunnar á Íslandi, en að ef vel gangi komi CarbFix-aðferðin til með að hafa gríðarleg áhrif á kolefnisspor Íslands á næstu áratugum.
„Ef að stóriðjan öll myndi hreinsa sig að fullu sem er kannski alltof bratt markmið held ég, en ef svo væri staðan myndi losun Íslands miðað við stöðuna í dag vera svona um 40% af heildinni sem væri stærsta umhverfisverkefni sem við höfum ráðist í. En það er langur vegur í það en þetta er mjög mikilvægt og skemmtilegt fyrsta skref að stóriðjan og stjórnvöld skuli vilja vinna með okkur og við erum mjög ánægð að fá að vinna með stóriðjunni og hjálpa þeim að draga úr losun.“