Bæjarstjóri Seltjarnarness ætlar að óska eftir svörum frá starfsbróður sínum í Reykjavík, Degi B. Eggertssyni, vegna knapps græns beygjuljóss á gatnamótum Geirsgötu og Lækjargötu sem margir Seltirningar nýta sér á leið heim úr vinnu og daglegum störfum.
„Við erum aðeins búin að vera að velta þessu fyrir okkur í bæjarstjórninni. Bæjarstjórinn ætlar að setja sig í samband við borgarstjóra. Þetta er algjörlega ólíðandi,“ segir Magnús Örn Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar Seltjarnarness, í samtali við mbl.is.
Magnús stóðst ekki mátið og tók myndskeið (sem sjá má hér að ofan) af ljósunum þegar hann var fastur í umferð við Hörpu í gær. „Ég held að þetta sé nær sjö sekúndum sem græna ljósið er logandi,“ segir hann. Magnús tók myndskeiðið um klukkan 17:30 í gær og var þá óvenju seint á ferð heim úr vinnu. „Röðin byrjaði að myndast við húsnæði ríkislögreglustjóra og þarna voru líka strætisvagnar sem eru stopp,“ segir Magnús. Umferðarteppan hefur því einnig áhrif á almenningssamgöngur sem Magnús segir nauðsynlegt að leysa.
Sæbrautin eða Hringbrautin eru einu kostir Seltirninga á leið heim. „En þetta hefur ekki bara áhrif á Seltirninga. Þetta er líka allur Vesturbærinn og innnesið. Það var mikið kurr í okkur í vor þegar menn ætluðu að fara í að þrengja Hringbrautina en Vegagerðin stoppaði það. Síðan er það þessi leið,“ segir Magnús.
Framkvæmdir við Hafnartorg hafa haft áhrif á umferð í þó nokkurn tíma en Magnús segir að samkomulag hafi náðst um að hafa alltaf tvær akreinar í vesturátt. „Það var fyrirséð að það myndi eitthvað hægja á en ég held að engan hafi órað fyrir að það er beinlínis verið að stöðva umferð með ljósum.“
Magnús segir að hægt sé að greiða úr umferðinni til dæmis með því að samstilla ljósin auk þess að lengja græna ljósið. „Þarna er um að ræða stillingu einstakra ljósa. Ef að einhvern tímann á að vera lengri tími á ljósum er það til að grípa umferðarflæði þegar fólk er á leið í og úr vinnu.“
Bæjarstjórn Seltjarnarness ætlar að krefja borgina um skýringar. „Þetta fer í umfjöllun í skipulags- og umferðarnefnd og byggingafulltrúinn mun spyrjast fyrir um málið. Svo veit ég að bæjarstjórinn ætlar að setja sig í samband við starfsbróður sinn og fá eðlilegar skýringar á þessu.“
Magnús segist hafa heyrt ófá dæmi um langþreytta Seltirninga sem sitja daglega í umferðarteppu. „Ég veit að það eru ansi margir sem eru að verða þreyttir á þessu, maður finnur það hérna í kringum okkur, þetta er lítið samfélag, maður fer út í búð og það eru allir kvartandi. Við skorum á borgaryfirvöld að liðka fyrir umferð í staðinn fyrir að hefta hana, sérstaklega á álagstímum.“