Annar mjaldranna steinsvaf í fluginu

Flugið gekk framar vonum.
Flugið gekk framar vonum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flugferð flutningavélarinnar  Cargolux með mjaldrana tvo frá Sjanghæ til Íslands gekk vel og var vélin hálftíma á undan áætlun þegar hún lenti í Keflavík klukkan 13.41 í dag. Mjaldrarnir voru órólegir í byrjun flugferðarinnar en róuðust þegar leið á flugið að sögn Brynjars Arnar Sveinjónssonar, yfirflugstjóra Cargolux.

„Þeir voru teknir úr stórri kví og settir í flugvél sem þeir þekkja ekki vel, svo það er skiljanlegt. Síðan voru þeir aðeins rólegri þegar líða fór á flugið, annar þeirra steinsofnaði,“ sagði Brynjar.  

Flugferðin gekk vel að hans sögn, þrátt fyrir seinkun á komu mjaldranna til Sjanghæ, en lengri tíma tók að tollafgreiða hvalina en búist var við.

„Þegar við vorum farnir af stað gekk þetta ansi vel. Flugtíminn átti upphaflega að vera 11 klukkutímar en við náðum að klára þetta á 10 og hálfum þannig að maður vann smá tíma á leiðinni,“ sagði Brynjar.

Um borð í flugvélinni var teymi umönnunaraðila sem þekkir vel til Litlu Hvítar og Litlu Gráar og fylgdist stöðugt með þeim í gegnum eftirlitsmyndavélar sem staðsettar voru í tönkunum.

„Síðan fóru þeir reglulega niður til þess að kíkja á þá, svo það var stöðugt eftirlit með þeim,“ sagði Brynjar.  

Tankar beggja mjaldranna hafa verið fluttir úr flugvélinni og unnið er að brottför til Landeyjahafnar. 

Mjaldrarnir hafa verið fluttir úr flugvélinni í sérútbúna flutningabíla sem …
Mjaldrarnir hafa verið fluttir úr flugvélinni í sérútbúna flutningabíla sem keyra með þá til Landeyjahafnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert