Starfsmenn búnaðarstofu Matvælastofnunar hafa verið á faraldsfæti í stjórnkerfinu og enn ein vistaskiptin verða um áramót. Þá renna þeir inn í atvinnuvegaráðuneytið.
Verkefni búnaðarstofu voru upphaflega unnin í Framleiðsluráði landbúnaðarins sem stofnað var á árinu 1947. Þau færðust til Bændasamtaka Íslands á árinu 1999 en þau samtök urðu til við sameiningu Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda. Síðar var stofnuð þar sérstök eining, búnaðarstofa, sem færð var í heilu lagi til Matvælastofnunar í byrjun árs 2016.
Búnaðarstofa var áfram í Bændahöllinni eins og starfsemin hafði verið frá byggingu hússins en á síðasta ári var hún flutt í Hafnarfjörð og er þar í sambýli með fleiri stofur Mast. Um næstu áramót flytja starfsmennirnir í sjávarútvegshúsið á Skúlagötu þar sem ráðuneytið er til húsa, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.