Fjórðu þingsystkinin

Nanna Margrét og Sigmundur Davíð Gunnlaugsbörn sitja nú saman á …
Nanna Margrét og Sigmundur Davíð Gunnlaugsbörn sitja nú saman á Alþingi. Ljósmynd/Samsett

Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, sem situr í 4. sæti á lista Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi, er systir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins. Hún tók sæti á Alþingi í fyrsta sinn í gær í fjarveru Gunnars Braga Sveinssonar. Nanna Margrét segir að það hafi verið mjög stuttur aðdragandi að þingsetunni en það leggist mjög vel í sig að setjast á þing. Það sé spennandi en á sama tíma mikil ábyrgðarstaða.

Faðir Nönnu Margrétar og Sigmundar Davíðs, Gunnlaugur M. Sigmundsson, átti einnig sæti á Alþingi á tíunda áratugnum en hann var þingmaður Framsóknarflokksins 1995 til 1999.

Sigmundur Davíð og Nanna Margrét eru ekki einu systkinin sem setið hafa á þingi á sama tíma, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins. Önnur systkini eða bræður sem setið hafa saman á Alþingi eru: Ingibjörg og Ísólfur Gylfi Pálmabörn, Halldór og Katrín Ásgrímsbörn og Valgerður og Björn Bjarnabörn en Bjarni faðir þeirra Benediktsson var sem kunnugt er alþingismaður og ráðherra um langt árabil. Bjarni sat um tíma á Alþingi á sama tíma og Pétur Benediktsson bróðir hans á sjöunda áratugnum. Einnig sátu saman á Alþingi um skeið bræðurnir Gunnar Birgisson og Kristinn H. Gunnarsson.

Þrír bræður sátu einnig á þingi og það eru þeir Gunnlaugur Stefánsson og Finnur Torfi Stefánsson sem sátu saman á þingi fyrir Alþýðuflokkinn 1978 - 1979. Nokkrum árum síðar tók þriðji bróðirinn sæti Guðmundur Árni Stefánsson sem sat með Gunnlaugi á þingi 1993-1995 og nokkrum sinnum síðar, þegar hann kom inn sem varaþingmaður. Að ógleymdum föður þeirra Stefáni Gunnlaugssyni sem sat á þingi 1971-1974. Allir voru þeir í Alþýðuflokknum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert