„Það er orðið mjög algengt að skemmtiferðaskipin komi hingað og stoppi við,“ segir Halla Ingólfsdóttir, eigandi Arctic Trip, ferðaþjónustufyrirtækis í Grímsey.
Halla segir að Grímsey sé sífellt að verða vinsælli áfangastaður ferðamanna en hún á von á 40-50 skemmtiferðaskipum til eyjarinnar í sumar. Tvö þeirra komu þangað um síðustu helgi.
Halla segir að ferðamenn sem heimsæki Grímsey sæki aðallega í eyjuna vegna fuglalífsins, náttúrunnar, mannlífsins og í það að fá að stíga yfir heimskautsbauginn en lundinn steli yfirleitt athyglinni.
Hún bætir við að hefð sé komin á það að atvinnufuglaljósmyndarar komi í eyjuna í nokkra daga til að ljósmynda fugla enda komist þeir óvenju nálægt fuglunum í eyjunni. Segir hún að ferðamenn sem heimsæki Grímsey hafi oft orð á því hvað mannlífið í eyjunni sé einstakt og fallegt.