Arnar Þór Ingólfsson
Flugvélaleigufyrirtækið ALC hefur fengið leyfi til þess að kæra úrskurð Landsréttar í máli Isavia gegn fyrirtækinu til Hæstaréttar. Þetta kemur fram á vef Hæstaréttar.
Með úrskurði Landsréttar var kröfum ALC, um að fá afhenta farþegaþotu í eigu fyrirtækisins sem WOW air hafði haft til umráða, hafnað. Þotan stendur á Keflavíkurflugvelli og hefur verið þar allt frá falli flugfélagsins í lok mars.
Málið snýst um það hvort Isavia hafi verið heimilt að taka veð í farþegaþotunni vegna vangoldinna gjalda WOW air upp á um 2 milljarða króna eða hvort einungis hafi verið hægt lögum samkvæmt að krefjast þeirra gjalda sem beinlínis tengjast notkun þotunnar.
ALC byggði beiðni sína um kæruleyfi á því að úrskurður Landsréttar væri bersýnilega rangur þar sem Isavia hefði ekki haft lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð héraðsdóms í málinu endurskoðaðan í heild.
Þá vísuðu lögmenn ALC til þess í málskotsbeiðninni að það hefði almennt gildi fyrir flugrekendur og eigendur loftfara að fá úr því skorið hvort niðurstaða Landsréttar um skýringu 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 væri rétt.
Umsókn ALC um kæruleyfi var tekin til greina þar sem talið var að úrlausn um þessi tvö atriði myndi hafa fordæmisgildi.