Kröfu um ógildingu kosninga vísað frá

Frá Gjögri í Árneshreppi.
Frá Gjögri í Árneshreppi. mbl.is/Golli

Héraðsdómur Vestfjarða hefur vísað frá dómi kröfu tveggja manna, Elíasar Svavars Kristinssonar og Ólafs Valssonar, um að viðurkennt verði með dómi að framkvæmd og undirbúningur sveitarstjórnarkosninga í Árneshreppi í maí í fyrra hafi ekki uppfyllt kröfur laga um kosningar til sveitarstjórna.

Áður hafði dómsmálaráðuneytið hafnað kröfum mannanna með úrskurði, en sagði þó í úrskurði sínum að „umtalsverðir annmarkar“ hefðu verið á framkvæmd kosninganna. Annmarkar þessir voru þó ekki taldir tilefni til þess að ógilda kosningarnar.

Dómur í þessu máli var kveðinn upp 10. maí síðastliðinn og í niðurstöðu hans segir að ekki verði fallist á það með stefnendum að þeir ágallar sem voru á framkvæmd kosninganna, geti leitt til ógildingar þeirra. Þeir hafi ekki verið „svo verulegir að þeir hafi verið til þess fallnir að hafa áhrif á niðurstöðu þeirra.“

Mönnunum tveimur var gert að greiða Árneshreppi eina milljón króna í málskostnað.

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert