„Læknar þurfa að vera vakandi fyrir sjaldgæfum sjúkdómum sérstaklega hjá Íslendingum sem ferðast erlendis,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir um þrjá íslenska ferðamenn sem greindust á Íslandi með chikungunya-sótt eftir ferðalag til Spánar.
Ekki er vitað hvort fleiri hafa smitast en beðið er eftir niðurstöðum rannsóknar frá Noregi hvort tilfellin séu fjögur. Þórólfur bendir á að það gæti vel verið að Íslendingar hafi smitast af þessu en ekki fengið greiningu.
Chikungunya-sótt berst með svokölluðum tígris-moskítóflugum. Ekkert bóluefni er til við henni og engin sérstök meðferð og því er lögð áhersla á að draga úr sársauka sjúklinga. Helstu einkenni eru hiti, liðverkir, útbrot, eymsli í neðra baki og stífleiki.
Tvær systur og sonur annarrar þeirra greindust með sjúkdóminn. Beðið er eftir niðurstöðu rannsóknar hvort þriðja systirin hafi einnig greinst með sóttina en hún smitast ekki á milli manna.
Hann segir að engin hætta sé á ferð og sóttin eigi að ganga yfir. Hins vegar getur hún haft einhver eftirköst eins og til dæmis áframhaldandi liðverki.
Þetta er fyrsta staðfesta smitið frá Spáni. Heilbrigðisyfirvöld hafa mikinn áhuga á þessu og gott samstarf er á milli Íslands og Spánar, að sögn Þórólfs. Vírusinn er nokkuð útbreiddur í Afríku og Asíu en er sjaldgæfur í Evrópu. Tilfelli hafa þó komið upp á Ítalíu og í Frakklandi.
Þórólfur segir vísbendingu um að þessir sjúkdómar séu að færast upp eftir Evrópu. „Við sjáum alltaf þessa þróun í sjúkdómum og það þarf ekki að koma á óvart,“ segir Þórólfur. Hvað veldur því nákvæmlega gæti verið hlýnun jarðar vegna loftslagsbreytinga.