Löngu og ströngu ferðalagi mjaldrasystranna Litlu-Hvítrar og Litlu-Grárrar lauk nú á ellefta tímanum þegar þær komu til Vestmannaeyja með Herjólfi. Ferðalagið tók alls um 19 klukkustundir og systurnar voru farnar að sýna þreytumerki við komuna til Vestmannaeyja að sögn Sigurjóns Inga Sigurðssonar, verkefnastjóra hjá sérverkefnadeild TVG-Zimzen, sem sá um flutninginn hér heima.
Ferðalagið hófst klukkan fjögur í nótt að íslenskum tíma þegar vöruflutningaþota Cargolux, Boeing 747-400 ERF, lagði af stað frá Sjanghæ í Kína með mjaldrana um borð. Flugið tók tæpar ellefu klukkustundir og lenti vélin í Keflavík rétt fyrir klukkan tvö í dag. Þar tók við tollafgreiðsla auk þess sem fulltrúar MAST skoðuðu mjaldrana og gáfu út formlegt leyfi fyrir flutningnum. Einnig var skipt um vatn að hluta í búrum systranna áður en lagt var af stað eftir Suðurstrandarveginum um klukkan sex síðdegis.
Til stóð að stoppa í Grindavík og á Selfossi en þar sem ferð flutningabílanna fór vel af stað var hætt við að stoppa í Grindavík og reynt að freista þess að ná Herjólfi sem átti að fara kortér fyrir níu. Vegna öryggisástæðna var stutt stopp tekið á Selfossi þar sem Helgi Haraldsson forseti bæjarstjórnar Árborgar tók á móti hersingunni. Frá Selfossi fengu mjaldrarnir lögreglufylgd að Landeyjahöfn.
Þar beið Herjólfur og óku flutningabílarnir inn í skipið, samtals tæplega tuttugu tonn. Áhöfn og farþegar biðu þolinmóðir eftir mjöldrunum og lagði Herjólfur af stað um klukkutíma á eftir áætlun. Laust fyrir klukkan ellefu kom Herjólfur til hafnar í Vestmannaeyjum.
Talsverður fjöldi var samankominn á höfninni í Vestmannaeyjum til að fylgjast með komu mjaldranna en í raun var lítið að sjá þar sem systurnar eru öruggar í tönkunum sínum. „Atburðurinn sést en engin dýr,“ segir einn Eyjamaður í samtali við mbl.is.
Nú er unnið að því að koma Litlu-Hvít og Litlu-Grá í tanka þar sem þær munu dvelja í nokkrar vikur til aðlögunar áður en þær synda frjálsar í sérsmíðaðri sjókví í Klettsvík. Gera má ráð fyrir að það taki að minnsta kosti tvo klukkutíma að koma mjöldrunum úr tönkunum í laugina.
Það voru góðgerðarsamtökin Sea Life Trust sem standa að flutningnum í samstarfi við dýraverndunarsamtökin Whale and Dolphin Conservation og afþreyingarfyrirtækið Merlin Entertainment. Sjókvíin í Klettsvík er fyrsta opna griðasvæðið í heiminum sem ætlað er hvölum.
Leyfi fyrir komu hvalanna var veitt af sjávarútvegsráðuneytinu og MAST í júní 2017. Ferðalagið hófst því formlega fyrir tveimur árum og í kvöld hefst nýr kafli í lífi Litlu-Hvítrar og Litlu-Grárrar. Systurnar eru 12 ára og vera þeirra í Eyjum gæti orðið löng þar sem mjaldrar geta náð 40-50 ára aldri.