Litla Grá og Litla Hvít komnar heim

Fjöldi fólks fylgdist með komu mjaldranna til Vestmannaeyja í kvöld.
Fjöldi fólks fylgdist með komu mjaldranna til Vestmannaeyja í kvöld. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

Löngu og ströngu ferðalagi mjaldrasystranna Litlu-Hvítrar og Litlu-Grárrar lauk nú á ellefta tímanum þegar þær komu til Vestmannaeyja með Herjólfi. Ferðalagið tók alls um 19 klukkustundir og systurnar voru farnar að sýna þreytumerki við komuna til Vestmannaeyja að sögn Sig­ur­jóns Inga Sig­urðsson­ar, verk­efna­stjóra hjá sér­verk­efna­deild TVG-Zimzen, sem sá um flutninginn hér heima. 

Herjólfur kom til hafnar í Vestmannaeyjum á ellefta tímanum í …
Herjólfur kom til hafnar í Vestmannaeyjum á ellefta tímanum í kvöld með mjaldrana tvo um borð. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

Ferðalagið hófst klukkan fjögur í nótt að íslenskum tíma þegar vöruflutningaþota Cargolux, Boeing 747-400 ERF, lagði af stað frá Sjanghæ í Kína með mjaldrana um borð. Flugið tók tæpar ellefu klukkustundir og lenti vélin í Keflavík rétt fyrir klukkan tvö í dag. Þar tók við tollafgreiðsla auk þess sem fulltrúar MAST skoðuðu mjaldrana og gáfu út formlegt leyfi fyrir flutningnum. Einnig var skipt um vatn að hluta í búrum systranna áður en lagt var af stað eftir Suðurstrandarveginum um klukkan sex síðdegis.

Litla-Hvít og Litla-Grá lentu í Keflavík um klukkan tvö í …
Litla-Hvít og Litla-Grá lentu í Keflavík um klukkan tvö í dag eftir ellefu klukkustunda flug frá Sjanghæ. Við tók fjögurra tíma akstur til Landeyjahafnar þaðan sem Herjólfur sigldi með systurnar síðasta spölinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fengu lögreglufylgd síðasta spölinn

Til stóð að stoppa í Grindavík og á Selfossi en þar sem ferð flutningabílanna fór vel af stað var hætt við að stoppa í Grindavík og reynt að freista þess að ná Herjólfi sem átti að fara kortér fyrir níu. Vegna öryggisástæðna var stutt stopp tekið á Selfossi þar sem Helgi Haraldsson forseti bæjarstjórnar Árborgar tók á móti hersingunni. Frá Selfossi fengu mjaldrarnir lögreglufylgd að Landeyjahöfn.

Þar beið Herjólfur og óku flutningabílarnir inn í skipið, samtals tæplega tuttugu tonn. Áhöfn og farþegar biðu þolinmóðir eftir mjöldrunum og lagði Herjólfur af stað um klukkutíma á eftir áætlun. Laust fyrir klukkan ellefu kom Herjólfur til hafnar í Vestmannaeyjum.

Tankarnir voru losaðir af flutningavögnunum við komuna til Vestmannaeyja í …
Tankarnir voru losaðir af flutningavögnunum við komuna til Vestmannaeyja í kvöld. Ljósmynd/Aðsend

Tvö ár frá því að leyfi var veitt

Talsverður fjöldi var samankominn á höfninni í Vestmannaeyjum til að fylgjast með komu mjaldranna en í raun var lítið að sjá þar sem systurnar eru öruggar í tönkunum sínum. „Atburðurinn sést en engin dýr,“ segir einn Eyjamaður í samtali við mbl.is. 

Nú er unnið að því að koma Litlu-Hvít og Litlu-Grá í tanka þar sem þær munu dvelja í nokkrar vikur til aðlögunar áður en þær synda frjálsar í sérsmíðaðri sjókví í Klettsvík. Gera má ráð fyrir að það taki að minnsta kosti tvo klukkutíma að koma mjöldrunum úr tönkunum í laugina. 

Mjaldrasysturnar Litla-Hvít og Litla-Grá koma alla leið frá sædýragarðinum Changfeng …
Mjaldrasysturnar Litla-Hvít og Litla-Grá koma alla leið frá sædýragarðinum Changfeng Ocean World í Sjanghæ í Kína. Þær eru 12 ára og eiga vonandi langt og farsælt líf fram undan í Vestmannaeyjum en mjaldrar geta náð 40-50 ára aldri. Ljósmynd/Aðsend

Það voru góðgerðarsamtökin Sea Life Trust sem standa að flutningnum í samstarfi við dýraverndunarsamtökin Whale and Dolphin Conservation og afþreyingarfyrirtækið Merlin Entertainment. Sjókvíin í Klettsvík er fyrsta opna griðasvæðið í heiminum sem ætlað er hvölum.

Leyfi fyrir komu hvalanna var veitt af sjávarútvegsráðuneytinu og MAST í júní 2017. Ferðalagið hófst því formlega fyrir tveimur árum og í kvöld hefst nýr kafli í lífi Litlu-Hvítrar og Litlu-Grárrar. Systurnar eru 12 ára og vera þeirra í Eyjum gæti orðið löng þar sem mjaldrar geta náð 40-50 ára aldri.

Spennan magnaðist eftir því sem mjaldrarnir nálguðust.
Spennan magnaðist eftir því sem mjaldrarnir nálguðust. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
Flutningabílarnir vega hvor um sig um 9 tonn með mjaldrinum …
Flutningabílarnir vega hvor um sig um 9 tonn með mjaldrinum og vatninu í tankinum. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
Heimamenn fylgdust með komu mjaldranna í kvöld.
Heimamenn fylgdust með komu mjaldranna í kvöld. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
Fjöldi fólks fylgidist með mjöldrunum sem komu til Vestmannaeyja í …
Fjöldi fólks fylgidist með mjöldrunum sem komu til Vestmannaeyja í kvöld eftir langt og strangt ferðalag alla leið frá Sjanghæ. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
Tankarnir voru fluttir í laug þar sem mjaldrarnir verða í …
Tankarnir voru fluttir í laug þar sem mjaldrarnir verða í aðlögun næstu vikurnar. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
Flutningurinn tók töluverðan tíma.
Flutningurinn tók töluverðan tíma. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert