Svo bar til á þjóðhátíðardaginn sjálfan að steypireyður sást inni á Faxaflóa. Og ekki aðeins steypireyður, heldur kálfurinn hennar líka. Þetta er ekki vanalegt. Farþegum um borð í hvalaskoðunarskipi snarbrá. Leiðsögumaður um borð segir þetta hafa verið stórmerkilegt augnablik.
Steypireyður er stærsta spendýr jarðar. Fullvaxin getur hún orðið 150 tonn að þyngd. „Þetta var alveg magnað. Venjulega þegar við sjáum hvali eru það hnúfubakar eða hrefnur en þessi var að hreyfa sig aðeins öðruvísi,“ segir Federigo Facchin, Ítali sem var leiðsögumaður um borð í skipi Special Tours, sem var statt nærri Suðurhrauni á Faxaflóa.
Federico sá hvalinn og hugsaði fyrst með sér að þetta væri kannski langreyður, út frá óhefðbundnu sköpulagi og hátterni. Svo kom hvalurinn nær, bara nokkrum metrum frá skipinu, og þá fóru að renna á Federico tvær grímur. Var þetta steypireyður? Hann tók myndir af fyrirbrigðinu og fékk það skömmu síðar staðfest að um steypireyði væri að ræða.
„Svo var þetta bara steypireyður. Móðir með litla kálfinn sinn. Satt að segja var þetta bara stórmerkilegt,“ segir Federico.
„Fólkið var uppi á efra þilfarinu að svipast um eftir dýrinu og ég var einn niðri á neðra þilfari. Maður veit aldrei hvar hún birtist aftur en allt í einu kom hún og mér krossbrá. Hún var beint fyrir framan mig og það heyrðist svo hátt í henni þegar hún blés! Ég var dauðskelkaður,“ lýsir Federico fyrir blaðamanni.
Það var helst til fámennt um borð í skipinu að mati Federico en þeir sem voru fylgdust andaktugir með skepnunni synda hringi í kringum skipið. Steypireyður er ekki aðeins stærsta spendýr jarðar heldur einfaldlega stærsta dýrategund sem hefur lifað á jörðinni, ef marka má Wikipedia.
Myndband af dýrinu:
Faxaflói er hins vegar grynnri en svo að þangað leggi leið sína steypireyðar að öllu jöfnu og því telst þetta atburður. Og eins og segir var hún ekki ein á ferð, heldur dóttir hennar líka. Sem hefur þó að líkindum ekki verið smá í sniðum frekar en tegundarsystur sínar. Síðast sást til steypireyðar fyrir átta árum og það var ekki í ámóta návígi, heldur í kíki. Annars hefur hvalaskoðunarskip aðeins mætt steypireyði einu sinni í flóanum, samkvæmt bráðabirgðaupplýsingum frá Special Tours.
mbl.is fékk þessar myndir frá Special Tours og einnig sérstaklega frá Federico, sem sjálfur er sjávarlíffræðingur og heldur vel að merkja úti Instagram-reikningi helguðum íslenskri náttúru.