„Þetta lítur ekki vel út“

Ari kann að vera í vanda staddur, hver sem hann …
Ari kann að vera í vanda staddur, hver sem hann er. Ljósmynd/María Elíasdóttir

„Við erum byrjaðir að skoða þetta. Við sáum þetta í fjölmiðlum og þetta lítur ekki vel út,“ segir Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á lögreglustöðinni í Flatahrauni í Hafnarfirði um spjöllin sem unnin hafa verið á Helgafelli við Hafnarfjörð.

„Svona gera menn ekki,“ segir Skúli.

Greyptar hafa verið myndir í steininn í fjallinu, sem hugsanlega verða lengi að mást út. Þær eru mjög áberandi sums staðar og virðast fyrst og fremst vera mannanöfn ýmis, svo og fjöldi reðurtákna. Umhverfisstofnun hefur að sögn kært málið til lögreglu á svæðinu og þegar embættinu berst sú kæra hefst formleg rannsókn á málinu.

Lögreglan mun lýsa eftir vitnum og kanna hvort einhver viti …
Lögreglan mun lýsa eftir vitnum og kanna hvort einhver viti eitthvað um umhverfisspjöllin sem unnin voru á Helgafelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við munum lýsa eftir vitnum og kanna hvort einhver viti eitthvað um málið,“ segir Skúli, sem telur of snemmt að fullyrða um hvort nöfnin sem greypt eru í steininn kunni að vera vísbending um hver sé að verki. Sem sagt hvort menn hafi verið að merkja sér stað sjálfir. Það verður að koma í ljós.

„En við þurfum náttúrulega að finna út úr því hver var þarna að verki,“ segir Skúli. „Við þurfum að skoða vegsummerki og kanna hvort leiða megi af þeim einhverja niðurstöðu,“ segir hann.

Greyptar hafa verið myndir í móbergið, samhengislaust krass, skammstafanir fólks …
Greyptar hafa verið myndir í móbergið, samhengislaust krass, skammstafanir fólks eða fallísk tákn. Ljósmynd/María Elíasdóttir

Fyrstu skref séu að fara á vettvang og kanna hvort ástandi sé eins og myndirnar sýna. Af þeim að dæma er fjallið nánast þakið tröllauknum teikningum, ýmist af fígúrum ýmsum eða bara skammstöfunum fólks. Skúli gerir ráð fyrir að um sé að ræða einhvers konar brot á náttúruverndarlögum, ekki síst í ljósi þess að Umhverfisstofnun hefur þegar sent lögreglu kæru. Það er ástæða til rannsóknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert