Stjórn VR samþykkti í gær að boða fund í fulltrúaráði VR hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna (LV) og leggja þar fram tillögu um að afturkalla umboð þeirra sem félagið tilnefnir í stjórn lífeyrissjóðsins og skipa nýja fulltrúa í stjórn til bráðabirgða. Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR staðfestir þetta í samtali við mbl.is, en Kjarninn greindi fyrst frá. VR tilnefnir 4 af 8 stjórnarmönnum í LV.
Ragnar Þór segir í samtali við blaðamann að ástæðan fyrir því að gripið sé til þessara aðgerða sé ákvörðun stjórnar sjóðsins, sem tekin var 24. maí síðastliðinn, um að hækka breytilega vexti verðtryggðra sjóðfélagalána úr 2,06% upp í 2,26%, en tveimur dögum fyrr hafði Seðlabanki Íslands lækkað stýri vexti um hálft prósentustig.
„Þegar að við verðum uppvís að því að sjóður sem við erum svona nátengd sjálf er að vinna augljóslega gegn þeirri vegferð sem við erum að fara, þá verður að bregðast við með einhverjum hætti,“ segir Ragnar Þór.
Fundur fulltrúaráðsins verður haldinn á morgun, en hann situr 15 manna stjórn VR og tíu fulltrúaráðsliðar að auki. Þrettán af fimmtán í stjórn VR greiddu atkvæði með því að bera tillöguna upp og einfaldur meirihluti þeirra 25 sem sitja í fulltrúaráðinu dugir til þess að tillagan verði að veruleika.
Í samtali við mbl.is 3. júní sl. sagði Ragnar Þór að vaxtahækkunin væri „í rauninni bara stríðsyfirlýsing“ gegn því sem verkalýðshreyfingin væri að reyna að vinna að og sagði spurningu hvort sjóðurinn væri kerfisbundið að vinna gegn tilraunum Seðlabankans og verkalýðhreyfingarinnar til þess að reyna að „lækka kostnaðinn við að lifa“.
Hann segir nú að þessi ákvörðun hafi ekki bara verið „blaut tuska“ framan í stjórn VR heldur beinlínis „niðurlægjandi fyrir verkalýðshreyfinguna“ og að stjórn VR hafi óskað eftir rökstuðningi frá stjórn LV.
„Það er ekki hægt að lesa neitt annað út úr greinargerð lífeyrissjóðsins en að stjórnarmönnum þyki vextir einfaldlega vera orðnir of lágir, og þá spyr maður sig hvort að markaðsvextir stjórni umhverfi vaxta í bönkum og lífeyrissjóðum eða geðþótti stjórnar hverju sinni. Við höfum tekið saman gögn um það að álagning banka og fjármálafyrirtækja hefur aukist mikið, markaðsvextir hafa lækkað mun meira en vextir hafa lækkað hjá lífeyrissjóðum og fjármálastofnunum,“ segir Ragnar og nefnir dæmi um að nýlega hafi foreldrar og forráðamenn barna sem eiga lokaða verðtryggða reikninga fengið tilkynningu um 0,5 prósentustiga lækkun á innlánsvöxtum, „á meðan að útlánsvextir hreyfast ekki“.
Ragnar Þór segir að það sé ekki í hendi að umboð núverandi fulltrúa VR í stjórn LV verði afturkallað, en að hann sé bjartsýnn á að svo verði.
Þá verða nýir stjórnarmenn strax skipaðir sem að „taka mið af vegferð verkalýðshreyfingarinnar og markmiðum lífskjarasamningsins og taki mið af samfélaginu og samfélagslegri sátt,“ því það sé hagur allra sjóðsfélaga, hvort sem þeir séu ungir eða gamlir, að vaxtastig í landinu sé lágt.
Ákvörðun stjórnar LV um að hækka vexti á að taka gildi 1. ágúst næstkomandi. Spurður hvort þeir stjórnarmenn sem VR muni skipa, komi til þess, muni berjast fyrir því að vaxtahækkunin verði afturkölluð, segir Ragnar að hann geti ekki sagt til um það, en að hann reikni þó með því.
„Skilaboðin okkar til þeirra stjórnarmanna sem við munum skipa komi til þess að þetta verði samþykkt, þau verða alveg skýr. Markmið okkar, með skipan þeirra, með hliðsjón af lífskjarasamningnum, verða alveg skýr. Skilaboð okkar til þeirra stjórnarmanna sem við erum að afturkalla umboðið hjá eru líka alveg skýr. Skilaboð okkar út í samfélagið eru alveg skýr, því Lífeyrissjóður verzlunarmanna er jú einn stærsti hluthafinn í mörgum af stærstu fyrirtækjum landsins,“ segir Ragnar.