SUPER1 hóf í dag, fyrst íslenskra verslunarkeðja, sölu á umbúðalausu grænmeti og ávöxtum í verslun sinni að Faxafeni 14. Þetta er tilraunaverkefni og fyrirhugað er að umbreyta grænmetisborðum í öðrum verslunum á sama hátt ef vel gengur.
Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri verslunarinnar, segir í tilkynningu, að SUPER1 sé fyrst íslenskra verslunarkeðja sem stígi þetta skref.
Fram kemur, að allar vörur í grænmetis og ávaxtaborði séu án umbúða, ef frá er talið pappírsöskjur undir viðkvæmar vörur, og selt eftir vigt. Verslunin hafi í framhaldinu hætt notkun á plastpokum undir grænmeti og bjóði þess í stað upp á pappírspoka.
Þá segir, að það sé viðbúið að sala eftir vigt minnki matarsóun enda sé óþarfi að henda heilum pakkningum þrátt fyrir að lítill hluti sé skemmdur.
SUPER1 er ný verslunarkeðja sem rekur 3 verslanir á höfuðborgarsvæðinu. Eru verslanirnar reknar í nánu samstarfi við norræna verslunarrisann REMA1000 sem leggur ríka áherslu á lífrænar vörur, minni matarsóun og umhverfisvernd, að því er segir í tilkynningunni.