„Ef fólk biður um stríð fær það stríð“

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, segir ásakanir um einelti hluta af …
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, segir ásakanir um einelti hluta af pólitískum ofsóknum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta mál snýst um tilfinningaklám og ofbeldi gegn kjörnum fulltrúum,“ segir Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins um eineltisásakanir henni á hendur sem komnar eru til meðferðar innan áreitnis- og eineltisteymis ráðhússins.

„Ef fólk biður um stríð fær það stríð,“ segir Vigdís.

Helga Björg Ragnarsdóttir skrifstofustjóri skrifstofu borgarstjóra og borgarritara lagði fram 100 bls. kvörtun yfir hegðun Vigdísar Hauksdóttur gagnvart starfsmönnum borgarinnar til teymisins. Til þess að teymið geti tekið málið til meðferðar samkvæmt bráðabirgðarferli sem samþykktur var 7. maí 2019 þarf Vigdís að fallast á meðferð málsins og taka að einhverju leyti þátt. Það hyggst hún ekki gera.

„Ég kem ekki til með að svara neinum boðum, tölvupóstum, símhringingum eða neinu því sem snýr að þessu máli og kem hvergi til með að mæta á einn einasta fund sem ég verð boðuð á vegna þessa máls,“ segir Vigdís í samtali við mbl.is.

Þórdís Lóa sagði við mbl.is að málið væri komið í ópólitískan feril hjá borginni en Vigdís telur ljóst að svo sé ekki. „Ég botna ekki í orðum Þórdísar Lóu að þetta sé ekki pólitískt rekið mál, því þetta er algerlega samansúrrað af pólitík. Auðvitað er þetta ekkert annað en pólitískar ofsóknir á pólitíska andstæðinga borgarstjóra,“ segir hún.

Vigdís segir að Helga Björg sé „ekki ein í þessu.“ „Þetta hefði aldrei farið af stað eins og það birtist í gær með bréfinu til mín nema borgarstjóri, borgarritari og jafnvel borgarlögmaður væru búnir að gefa grænt ljós fyrir því, enda hefur málið frá upphafi verið keyrt áfram af þessum fjórum aðilum,“ segir Vigdís.

Helga Björg Ragnarsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu borgarstjóra, sakaði Vigdísi Hauksdóttur um …
Helga Björg Ragnarsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu borgarstjóra, sakaði Vigdísi Hauksdóttur um einelti í sinn garð. Ljósmynd/Velferðarráðuneytið

Segir ferilinn gerðan til að klekkja á henni einni

Þá sé virkjun bráðabirgðaferilsins til höfuðs henni. Dagsetningin í bréfi borgarráðs titlað „Bráðabirgða verkferill og leiðir til úrlausna vegna kvartana starfsfólks Reykjavíkurborgar vegna framgöngu kjörinna fulltrúa í þeirra garð“ er 7. maí 2019.  

„Þessi sirkús sem var settur á stað varðandi þennan bráðabirgðarferil er augljóslega gerður til þess að klekkja á mér einni. Þó að segi í bréfinu að ferillinn hafi verið samþykktur á fundi 7. maí, var enginn fundur 7. maí. Hann var 9. maí,“ segir Vigdís.

„Og þá er búið að senda erindisbréf strax sama dag, 7. maí, með þessum umkvörtunum um mig,“ segir Vigdís.

Vigdís segir í bókun sinni á fundi í morgun að hún túlki virkjun ferilsins sem svo að hann gangi í báðar áttir, það er, að með honum geti kjörnir fulltrúar einnig kvartað undan starfsmönnum borgarinnar, rétt eins og þeim er gert kleift að kvarta undan kjörnum fulltrúum.

Vigdís telur að héðan af eigi kjörnir fulltrúar sömuleiðis að geta leitast eftir því að nota bráðabirgðaferilinn, sem þó er aðeins sagður virka í hina áttina. „Auðvitað gengur ferillinn í báðar áttir. Gleymum því ekki að borgarritari kallaði okkur mörg hver tudda á skólalóð. Ég þurfti að eyða mörgum dögum í að svara fyrir þau ummæli og það má segja að það hafi truflað vinnufrið í ráðhúsinu, þessi afgerandi dónalega afstaða borgarritara til kjörinna fulltrúa. Borgarritari á að vinna fyrir alla kjörna fulltrúa, ekki bara Dag B. Eggertsson og co.,“ segir Vigdís.

Standist ekki stjórnsýslurétt

„Það er rangt hjá formanni borgarráðs að þessi ferill sé ótímabundinn. Í bréfinu sem mér var sent stendur „þér er jafnframt gefinn kostur til að leggja fram skrifleg andmæli og athugasemdir til teymisins við meðfylgjandi erindi [...] Þér er veittur frestur til og með 26. júní 2019,“ segir Vigdís.

Það segir hún ekki standast stjórnsýslurétt. „Mér er veittur sjö daga frestur þannig að þetta uppfyllir ekki einu sinni stjórnsýslurétt,“ segir Vigdís. „Enda er þetta mál allt saman rekið án nokkurra lagastoða. Þetta mál snýst um tilfinningaklám og ofbeldi gegn kjörnum fulltrúum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert