„Það eru allir glaðir og ánægðir og í það heila gekk þetta vonum framar,“ segir Sigurjón Ingi Sigurðsson, verkefnastjóra sérverkefnadeildar TVG-Zimsen, sem sá um flutning mjaldranna frá Keflavík til Vestmannaeyja í gær.
Mjaldrasysturnar Litla-Grá og Litla-Hvít komu til Vestmannaeyja í gærkvöldi eftir langt og strangt 19 klukkustunda ferðalag frá sædýragarðinum Changfeng Ocean World í Sjanghæ í Kína. Herjólfur kom í land með mjaldrana innanborðs rétt fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi en við tók nokkurra klukkustunda vinna við að koma þeim í sérútbúna laug þar sem þær munu aðlagast næstu vikurnar áður en þær verða fluttar í griðarsvæði í Klettsvík sem er það fyrsta í heiminum sem er sérhannað fyrir mjaldra.
„Ég lagðist á koddann klukkan þrjú í nótt,“ segir Sigurjón sem er afar sáttur við hvernig til tókst. Flutningurinn hefur verið í undirbúningi í tvö ár og því er mikil vinna sem liggur að baki. „Við höfum fengið innsýn í líf hvalanna og það er ánægjulegt að sjá hvað það er mikið af fagfólki í kringum þá sem hefur „passion“ fyrir dýravelferð,“ segir Sigurjón.
Litla-Grá og Litla-Hvít ferðuðust í sitt hvorum tanknum þar sem fór vel um þær og voru þær undir ströngu eftirliti alla ferðina. Systurnar voru farnar að sýna þreytumerki við komuna til Vestmannaeyja að sögn Sigurjóns, en fljótlega efitr komuna í laugina fóru þær að hreyfa sig og éta.
Hér að neðan má sjá myndir frá ferðalaginu frá því að Litla-Grá og Litla-Hvít lentu í Keflavík rétt fyrir klukkan tvö í gær og þar til þær komu til Vestmannaeyja á ellefta tímanum í gær.
Flutningavélin var merkt í stíl við farþegana.
Flugferð flutningavélarinnar Cargolux með mjaldrana tvo frá Sjanghæ til Íslands gekk vel og var vélin hálftíma á undan áætlun þegar hún lenti í Keflavík klukkan 13.41 í gær.
mbl.is/Eggert Jóhannesson
Flugið tók um tíu og hálfan tíma. Mjaldrarnir voru órólegir í byrjun flugferðarinnar en róuðust þegar leið á flugið.
mbl.is/Eggert Jóhannesson
Tankarnir með Litlu-Grá og Litlu-Hvít komu til Keflavíkur í gær eftir tæplega 11 klukkustunda flug frá Kína.
Ljósmynd/Sea Life Trust
Tveir nýir Mecedes-Benz Actros 5 fluttu vagnanna með mjöldrunum en þetta er nýjasta kynslóð þessara stóru atvinnubíla.
mbl.is/Eggert Jóhannesson
Flutningabílarnir óku beint um borð í Herjólf með mjaldrana innanborðs.
Ljósmynd/Aðsend
Herjólfur kom til hafnar í Vestmannaeyjum á ellefta tímanum í gærkvöldi með mjaldrana tvo um borð.
Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
Eyjamenn kíktu við í höfninni í gær í þeirri von að sjá mjaldrasysturnar. Þær voru hins vegar öruggar í tönkunum sínum þar til þær komust í laugina.
Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
Rúnturinn lá niður á höfn í Vestamannaeyjum í gærkvöldi.
Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
Fjöldi fólks stillti sér upp þegar flutningabílarnir keyrðu frá borði.
Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
Spennan magnaðist eftir því sem mjaldrarnir nálguðust.
Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
Flutningabílarnir vega hvor um sig um 9 tonn með mjaldrinum og vatninu í tankinum.
Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
Fjöldi fólks fylgidist með mjöldrunum sem komu til Vestmannaeyja í gærkvöldi eftir langt og strangt ferðalag alla leið frá Sjanghæ.
Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
Tankarnir voru fluttir í laug þar sem mjaldrarnir verða í aðlögun næstu vikurnar.
Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
Um fjóra klukkutíma tók að flytja mjaldrana úr Herjólfi og í laugina.
Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
Tankarnir voru fluttir út Herjólfi og í húsnæðið þar sem mjaldrarnir munu dvelja í laug næstu vikurnar til að venjast aðstæðum.
Ljósmynd/Aðsend
Mjaldrasysturnar verða í einangrun í sérsmíðaðri laug þar sem þær munu dvelja í um fimm til sex vikur á meðan þær venjast nýju heimkynnunum.
Ljósmynd/Sea Life Trust
Systurnar munu dvelja í sérstöku griðarsvæði í Klettsvík sem er það fyrsta í heiminum sem er sérhannað fyrir mjaldra.
Ljósmynd/Sea Life Trust