Fleiri hælisleitendur hafa sótt um alþjóðlega vernd það sem af er ári miðað við sama tíma í fyrra, samkvæmt nýjustu tölum Útlendingastofnunar. Þar kemur fram að 322 einstaklingar hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi fyrir lok maí sl., sem er meiri fjöldi en á sama tíma í fyrra, þegar talan var alls 235.
Eitthvað hefur þó hægst á á fjölgun hælisleitenda á árinu miðað við tölur Útlendingastofnunar fyrir apríl og maí. Fjöldi einstaklinga sem sóttu um alþjóðlega vernd á fyrstu þremur mánuðum ársins var 222, eða að meðaltali 74 á mánuði. Í apríl sóttu 44 einstaklingar um alþjóðlega vernd á Íslandi en 56 í maí.
Þórhildur Ósk Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, segir fjölda umsókna á fyrstu þremur mánuðum ársins svipa til ársins 2017, en í lok mars á því ári voru umsóknir 226. Segir hún að fjöldi umsókna í apríl og maí á þessu ári svipi frekar til gagna frá 2018, en þá bárust stofnuninni 43 umsóknir í apríl og 54 í maí.
Flestar umsóknir á árinu eru frá einstaklingum frá Írak, 42, og Afganistan, 28. Á sama tíma í fyrra höfðu 43 einstaklingar frá Írak sótt um alþjóðlega vernd en 14 frá Afganistan.
Þriðju algengustu ríkisföng hælisleitenda eru Nígería og Venesúela, en 24 einstaklingar frá hvoru landinu hafa sótt um alþjóðlega vernd á árinu. Er það fjölgun frá því í fyrra, þegar fimm einstaklingar frá Venesúela sóttu um hæli á fyrstu fimm mánuðum ársins 2018 og enginn frá Nígeríu.