Gera ráð fyrir frábærri hátíð

Handtökin eru mörg á síðustu metrunum. Frá undirbúningi hátíðarinnar í …
Handtökin eru mörg á síðustu metrunum. Frá undirbúningi hátíðarinnar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Undirbúningur fyrir Secret Solstice-tónlistarhátíðina hefur gengið vonum framar að sögn Jóns Bjarna Steinssonar, upplýsingafulltrúa hátíðarinnar. Gerðar hafa verið ráðstafanir til að koma til móts við kvartanir íbúa í Laugardalnum og mikil ánægja er með þá tónlistarmenn sem hlaupa í skarðið fyrir þá sem hafa forfallast.

„Það hefur aldrei gengið svona vel að setja hátíðina upp. Veðrið síðustu vikur er búið að vera geggjað og við erum búin að vera á undan áætlun og allt bara að verða tilbúið. Við erum bara í dúndurfínum málum,“ segir Jón.

Jón segir miðasöluna vera svipaða og í fyrra, en að margir kaupi miða með stuttum fyrirvara og að ekki sé ólíklegt að sá hópur verði stærri en í fyrra sökum veðurs.

„Stærsti hluti miðasölunnar fer fram þessa síðustu tvo daga fyrir hátíðina og þegar hún byrjar. Við erum með svipaða sölu og í fyrra nema bara miklu betri veðurspá þannig við búumst við stuði í dalnum.“

Þessir krakkar voru að virða fyrir sér hátíðarsvæðið er ljósmyndara …
Þessir krakkar voru að virða fyrir sér hátíðarsvæðið er ljósmyndara mbl.is bar að garði í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá bætir Jón við að miðaverð hafi lækkað og ráðstafanir gerðar til að koma til móts við fjölskyldufólk.

„Miðinn kostar í ár 19.900 en kostaði í fyrra 24.900 og svo í ár er frítt inn fyrir 12 ára og yngri en í fyrra var það fyrir 10 ára og yngri. Svo er sérstakur ungmennapassi í ár fyrir þá sem eru 13 til 17 ára. Svo verður líka í fyrsta skiptið hægt að kaupa dagpassa alla dagana.“

Ráða ekki við slys og veikindi skemmtikrafta

Söngkonan Rita Ora og plötusnúðurinn Martin Garrix munu ekki koma fram á hátíðinni líkt og til stóð vegna veikinda og meiðsla en Jón segir fólk vera ánægt með þá sem bókaðir voru í staðinn.

„Jonas Blue kemur í staðinn fyrir Martin Garrix og svo kemur Pusha T í staðinn fyrir Ritu Ora. Það eru einhverjir örfáir sem hafa kvartað og við skiljum það alveg en við getum lítið gert þegar fólk veikist eða slasast. Fólk hefur verið að sýna þessu bara fullan skilning og við gerðum okkar besta á þeim litla tíma sem við höfðum til að finna einhverja í staðinn og við erum bara mjög ánægð með það sem við fengum.“

Herða aðgengi og bæta skipulag

Íbúar í nágrenni hátíðarinnar í Laugardal hafa sumir lýst yfir óánægju með hátíðina á síðustu árum vegna vímuefnaneyslu hátíðargesta og hávaða frá svæðinu. Jón segir hátíðarhaldara hafa gert ráðstafanir til að koma til móts við íbúana og að ekki sé búist við öðru en að allt gangi vel fyrir sig.

„Við héldum samráðsfund um daginn þar sem öllum foreldrafélögum og íbúasamtökum var boðið ásamt slökkviliðinu og löggunni. Svo hefur borgin líka haldið fund með félagsmiðstöðvum og íbúasamtökum í nágrenni hátíðarinnar. Við erum svo í samstarfi með tveimur félagsmiðstöðvum sem verða á svæðinu og verða okkur innan handar ef það kemur upp eitthvað vesen.

„Gæslan hefur alltaf verið mjög öflug og verður það áfram en því sem var breytt í ár er að reglurnar um hvernig þú kemst inn á svæðið voru hertar. Þú kemst ekki inn án skilríkja sem passa við miðann þinn og þeir sem eru yngri en 18 ára þurfa að hafa foreldra með sér þegar þeir fá armbandið sitt afhent.

„Foreldrarnir eða forráðamenn þurfa svo að kvitta undir það að barnið megi fara á hátíðina og jafnframt yfirlýsingu þess efnis að einhver eldri en 20 ára á þeirra vegum eða þau sjálf fylgi barninu sínu á hátíðinni til að passa að þau fari sér ekki að voða. Við ætlum að fylgja þessu mjög vel eftir, segir Jón“

Jón segir hátíðarhaldara hafa gert ráðstafanir til að koma til …
Jón segir hátíðarhaldara hafa gert ráðstafanir til að koma til móts við íbúa í Laugardalnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón segir viðbrögð íbúa almennt vera jákvæð en að ekki sé hægt að gera öllum til geðs. Hátíðin hafi þó verið stytt í ár og næturdagskrá fært annað svo að ónæði fyrir íbúa verði sem minnst. 

„Það eru alltaf einhverjir sem eru óánægðir. En flest viðbrögð sem við fáum frá íbúum eru jákvæð. Það eru alltaf einhverjir sem eru neikvæðir og við skiljum það náttúrulega, við skiljum að það sé alltaf eitthvað ónæði frá hátíðinni. Við styttum hana í ár, það er engin næturdagskrá í dalnum þannig það á að vera töluvert minna ónæði en síðustu ár. Dagskráin er bara til 23:30 og heldur síðan áfram niðri í miðbæ og þetta er gert til að koma til móts við kvartanir nágranna þannig það eru allir sælir og sáttir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert