Arnar Þór Ingólfsson
Fulltrúaráð VR samþykkti á fundi sínum í kvöld að afturkalla umboð þeirra fjögurra stjórnarmanna sem félagið skipar í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og tilnefna nýja í þeirra stað. VR hefur birt tilkynningu á vef sínum þessa efnis.
Stjórn VR samþykkti á fundi sínum á þriðjudag að boða til fundar í fulltrúaráðinu, sem telur 25 manns, og bera þessa tillögu upp. Fundurinn hófst kl. 18 og liggur niðurstaðan nú fyrir, en fjórir nýir stjórnarmenn verða skipaðir í stjórn lífeyrissjóðsins sem að munu „taka mið af vegferð verkalýðshreyfingarinnar og markmiðum lífskjarasamningsins“, samkvæmt því sem Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR sagði í samtali við mbl.is í gær.
Eins og fram hefur komið er ástæða þess að VR kaus að grípa til þessara aðgerða sú að þann 24. maí síðastliðinn hækkaði Lífeyrissjóður verzlunarmanna breytilega vexti verðtryggðra sjóðfélagalána úr 2,06% upp í 2,26%, en tveimur dögum fyrr hafði Seðlabanki Íslands lækkað stýri vexti um hálft prósentustig.
Samkvæmt tilkynningu á vef VR var tillagan samþykkt með 20 atkvæðum þeirra 24 sem að sátu fundinn og hið sama átti við um tillögu um skipan nýrra stjórnarmanna í stjórn lífeyrissjóðsins, aðal- og varamanna, en þeir eru:
Aðalmenn
Bjarni Þór Sigurðsson
Guðríður Svana Bjarnadóttir
Helga Ingólfsdóttir
Stefán Sveinbjörnsson
Varamenn
Björn Kristjánsson
Oddur Gunnar Jónsson
Selma Árnadóttir
Sigríður Lovísa Jónsdóttir