„Meginatriðið er að þetta snýst fyrst og fremst um mannréttindi en ekki um íslensku. Ég hef aldrei séð nein rök fyrir því að aukið frelsi í þessu hafi neikvæð áhrif á íslenskuna,“ segir Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, sem furðar sig á því að mannanafnafrumvarpið hafi verið fellt á Alþingi í nótt.
Hann segir frumvarpið ekki hafa verið fullkomið en tekur fram að það hafi breyst til batnaðar eftir breytingartillögur minnihlutans. Hann bendir á að fjölmörg ákvæði í gildandi lögum standast ekki nútímahugmyndir um jafnrétti. Það sé að koma sífellt betur og betur í ljós.
Í því samhengi nefnir hann sem dæmi ættarnöfn en ekkert jafnrétti felist í því að sumir mega bera þau en aðrir ekki. Honum svíði einnig óréttlætið þegar foreldrar vilja nefna börn sín í höfuð á ömmu eða afa barnsins en nafn þeirra fellur ekki undir lög um mannanöfn. Í slíkum tilfellum er nafngiftinni synjað. „Mér finnst það ekki manneskjulegt að gera það,“ segir hann og vitnar í sambærileg dómsmál. „Þessum málum á eftir að fjölga með tilheyrandi kostnað fyrir ríkið,“ segir Eiríkur og bendir á að dómar sem hafa fallið séu ekki ríkinu í hag.
Eiríkur furðar sig einnig á atkvæðaskýringu forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, á Alþingi þegar frumvarpið var fellt. Í máli hennar kom fram að breytingar á mannanafnalögum verði ekki teknar úr samhengi við íslenska málstefnu. Hann bendir á að ekki er útlit fyrir að endurskoðun á eflingu íslensku sem opinbers máls ljúki fyrr en árið 2021, samkvæmt þingsályktun þess efnis.
Flutningsmenn frumvarpsins voru: Þorsteinn Víglundsson, Guðjón S. Brjánsson, Hanna Katrín Friðriksson, Björn Leví Gunnarsson, Jón Steindór Valdimarsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.
Frumvarpið var fellt með 35 atkvæðum gegn 21 atkvæði. Einn sat hjá við atkvæðagreiðslu.