„Þetta var ótrúlega mikil upplifun að sjá þetta,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja, sem horfði á mjaldurinn Litlu-Grá synda af stað í lauginni sinni í Vestmannaeyjum í gær.
Mjaldrarnir voru látnir síga með lyftu ofan í laugina og Íris fylgdist með þegar önnur systranna fór ofan í. Að sögn Írisar gengur mjög vel að koma mjöldrunum fyrir.
„Þeir sem sinna systrunum eru mjög ánægðir með hvernig þær eru að aðlagast,“ segir hún en fyrst um sinn eru dýrin í sóttkví í djúpri öryggislaug í um 40 daga, áður en þeim er hleypt út í Klettsvík. Í sömu laug koma þær til með að eiga athvarf þegar fram líða stundir ef aðstæður verða erfiðar í Klettsvík.
Myndir úr ferðalaginu sýna hvernig fór um mjaldrana í gámunum. Á þeim má sjá að það var þröngt um þá búið, sem að sögn Írisar var til þess fallið að forða dýrunum frá ryskingum ef þær yrðu nokkrar í flugferðinni. Hengirúm mjaldranna voru úr mjúku efni og gámarnir sérhannaðir fyrir ferðalagið.
Að sögn Írisar er allt með kyrrum kjörum, systurnar eru farnar að éta, hreyfa sig og haga sér eðlilega. Á Instagram-myndinni eru mjaldrarnir enn í Kína.