Áminningarmálið fyrir Hæstarétt

Jón Steinar Gunnlaugsson.
Jón Steinar Gunnlaugsson. Ljósmynd/Aðsend

Hæstiréttur samþykkti í gær málskotsbeiðni Lögmannafélags Íslands í máli þess gegn Jóni Steinari Gunnlaugssyni, lögmanni og fyrrverandi hæstaréttardómara. Málið snýr að áminningum Lögmannafélagsins fyrir tölvupósta sem Jón Steinar sendi Ingi­mundi Ein­ars­syni, þáver­andi dóm­stjóra í Héraðsdómi Reykja­vík­ur.

Jón Steinar áfrýjaði áminningunni til Landsréttar, sem féllst á kröfu Jóns. Þar var Lögmannafélaginu gert að greiða Jóni Stein­ari all­an máls­kostnað í mál­inu, bæði fyr­ir héraði og í Lands­rétti, alls 1,2 millj­ón­ir króna.

Lögmannafélagið segir í málskotsbeiðni sinni að málið hafi verulegt almennt gildi og segir að með dómi Landsréttar hafi stoðum verið kippt undan eftirlitshlutverki Lögmannafélagsins með því að siðareglum þess sé fylgt. 

Fengi dómurinn að standa óhaggaður myndi hann hafa umtalsverð áhrif á hlutverk félagsins til framtíðar og stöðu lögmanna í réttarkerfinu. Ekki hafi áður reynt á sambærileg álitaefni.

Jón Steinar hlaut áminn­ing­una vegna tölvu­pósta sem hann sendi Ingi­mundi Ein­ars­syni, þáver­andi dóm­stjóra Héraðsdóms Reykja­vík­ur, þar sem hann lýsti óánægju sinni með af­greiðslu Ingi­mund­ar á beiðnum hans um flýtimeðferð í til­teknu dóms­máli.

Ingi­mundi blöskraði orðbragðið í tölvu­póst­skeyt­um Jóns Stein­ars og sendi þau áfram á Lög­manna­fé­lagið, sem vísaði því til úr­sk­urðar­nefnd­ar lög­manna sem komst að þeirri niður­stöðu að Jón Stein­ar hefði brotið gegn siðaregl­um lög­manna með al­var­leg­um hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert