Hæstiréttur samþykkti í gær málskotsbeiðni Lögmannafélags Íslands í máli þess gegn Jóni Steinari Gunnlaugssyni, lögmanni og fyrrverandi hæstaréttardómara. Málið snýr að áminningum Lögmannafélagsins fyrir tölvupósta sem Jón Steinar sendi Ingimundi Einarssyni, þáverandi dómstjóra í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Jón Steinar áfrýjaði áminningunni til Landsréttar, sem féllst á kröfu Jóns. Þar var Lögmannafélaginu gert að greiða Jóni Steinari allan málskostnað í málinu, bæði fyrir héraði og í Landsrétti, alls 1,2 milljónir króna.
Lögmannafélagið segir í málskotsbeiðni sinni að málið hafi verulegt almennt gildi og segir að með dómi Landsréttar hafi stoðum verið kippt undan eftirlitshlutverki Lögmannafélagsins með því að siðareglum þess sé fylgt.
Fengi dómurinn að standa óhaggaður myndi hann hafa umtalsverð áhrif á hlutverk félagsins til framtíðar og stöðu lögmanna í réttarkerfinu. Ekki hafi áður reynt á sambærileg álitaefni.
Jón Steinar hlaut áminninguna vegna tölvupósta sem hann sendi Ingimundi Einarssyni, þáverandi dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem hann lýsti óánægju sinni með afgreiðslu Ingimundar á beiðnum hans um flýtimeðferð í tilteknu dómsmáli.
Ingimundi blöskraði orðbragðið í tölvupóstskeytum Jóns Steinars og sendi þau áfram á Lögmannafélagið, sem vísaði því til úrskurðarnefndar lögmanna sem komst að þeirri niðurstöðu að Jón Steinar hefði brotið gegn siðareglum lögmanna með alvarlegum hætti.