Dagur B. Eggertsson borgarstjóri var léttur í spori þegar nýi guli innsiglingarvitinn við Sæbrautina var virkjaður í hádeginu og þannig tengdur við aðra vita í borginni. Borgarstjóri gerði sér lítið fyrir og vippaði sér upp í vitann þegar ljósmyndara mbl.is og Morgunblaðsins bar að garði. Auk Dags voru hafnarstjóri og stjórn Faxaflóahafna viðstödd þessa sögulegu stund.
Vitinn er austan við Höfða við Sæbraut í Reykjavík og á hann að koma í stað eldri vita í turni Sjómannaskólans sem var í notkun allt þar til háhýsin við Höfðatún fóru að skyggja á hann. Innsiglingarvitarnir frá 1913-1917 í Gömlu höfninni voru notaðir sem fyrirmynd við hönnun hjá Yrki Arkitektum á vitanum við Sæbraut.
Vitinn er mikilvægt öryggistæki fyrir sjófarendur og auðveldar siglingu inn í Reykjavíkurhöfn en einnig er reiknað með því að vitinn muni laða að sér ferðamenn, en útsýni frá honum er með allra besta móti.
Kostnaður við verkið fór umtalsvert fram úr áætlunum en áætlaður kostnaður borgarinnar við vitann er um 150 milljónir króna en gert hafði verið ráð fyrir því að hann yrði nálægt hundrað milljónum króna í upphafi. Kostnaður við jarðvinnu og landfyllingu er meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir og skýrir hækkunina að mestu leyti.