Tónlistarhátíðin Secret Solstice hófst í Laugardalnum síðdegis í dag. Hátíðin fór rólega af stað og á myndum frá því um kvöldmatarleytið virtust ekki fleiri en fáein þúsund á staðnum. Búist var við vel á annan tug þúsunda í dalinn.
Nóg er af fólki á svæðinu. Pusha T hélt uppi góðri stemningu á aðalsviðinu í Valhalla, þrátt fyrir að hafa verið tilkynntur með stuttum fyrirvara. Nú er blíðskaparveður og klukkan 22.40 hefjast síðustu tónleikar kvöldsins í Gimli. Svo verður skemmtanahaldi haldið áfram á Hard Rock í miðbænum.
Langar raðir mynduðust við opnun hátíðarinnar þegar fólk streymdi að til að sækja armböndin sín. Svo komust menn inn á svæðið og skemmtu sér þar í góðra vina hópi á sumarkvöldi. Sumir fóru í teygjubyssutívólítæki eða fallturn og styttu sér þannig stundir.
Helstu númerin í kvöld voru Pusha T, Pussy Riot, ClubDub, Yxng Bane, Jói Pé og Króli og margir fleiri. Jói Pé og Króli stíga síðastir á svið í Gimli.
Hátíðin heldur áfram á morgun. Þá stíga á svið Black Eyed Peas, Foreign Beggars, Högni og Hatari.