Máni Hrafnsson nokkur hefur verið á hlaupum frá því klukkan eitt í dag á íslenskum tíma. Hann hleypur upp og niður, upp og niður hið 1200 metra háa Gæsafjall nærri Vancouver í Canada, á ensku Grouse Mountain. Þetta ætlar hann að gera í 20 klukkustundir samfellt.
Furðu sætti ef hann tæki upp á þessu alveg út í bláinn og svo er vitaskuld ekki: Máni er að safna styrkjum, sem renna óskiptir til barnasjúkrahússins í Vancouver.
Hér má enn styrkja Mána, sem enn á eftir að hlaupa í 13 klukkustundir því þegar hefur hann hlaupið í tæpar 7. Áheitum er safnað alveg þar til í fyrramálið, klukkan 7 að morgni laugardags 22. júní, að íslenskum tíma.
Þegar hefur Máni safnað 2935 Kanadadölum, andvirði tæplega 280.000 króna, en eilíflega má gott bæta. Að því er segir í ávarpi til hugsanlega styrkjenda er barnasjúkrahúsið umrædda áþreifanlega mikilvæg stofnun í samfélaginu sínu. Nærri milljón barna reiða sig algerlega á sjúkrahús þetta, sem heitir BC Children's Hospital, því það er eini barnasjúkrahúsið á svæðinu.
Máni Hrafnsson hefur á Íslandi fengist við gerð kvikmynda og sjónvarpsefnis. Hann býr nú í Vancouver í Kanada. Hann er sonur Hrafns Jökulssonar rithöfundar og Elísabetar Rónaldsdóttur kvikmyndagerðarkonu.
Uppfært kl. 20:58: „Máni hefur nú hlaupið sjö sinnum á tindinn á tæpum tíu klukkustundum, og lætur engan bilbug á sér finna,“ segir Hrafn Jökulsson í orðsendingu til mbl.is og bætir því við að Máni sé enn sem fyrr efstur í áheitasöfnuninni þágu barnaspítalans í Vancouver.