Íslendingar sem taldir voru vera sýktir af Chikungunya-veiru reynast að öllum líkindum ekki vera með sýkinguna að því er Embætti landlæknis greinir frá.
Vísað er til nýlegra frétta um að fjórir Íslendingar, sem dvöldust á Alicante á Spáni, hefðu sýkst þar af Chikungunya-veiru. Þrír einstaklinganna eru búsettir á Íslandi og einn í Noregi.
„Fyrstu rannsóknarniðurstöður bentu til Chikungunyaveirusýkingar en við frekari rannsóknir hafa staðfestingarpróf hér á landi og erlendis ekki staðfest sýkinguna.
Á næstu dögum er fyrirhugað að gera frekari staðfestingapróf á Íslendingunum hér á landi sem munu skera endanlega úr um það hvort um ofangreinda sýkingu var að ræða eða ekki,“ segir á vef landlæknis.
Þar segir ennfremur, að fólkið hafi verið upplýst um þessa niðurstöðu sem og samstarfsaðilar á Spáni.
Þá er tekið fram, að allra leiða verði leitað í framtíðinni til að koma í veg fyrir að svona atvik endurtaki sig.