Mörk hins byggilega heims

Á hinni stuttu leið frá flugvelli Mehamn til bæjarins. Lítið …
Á hinni stuttu leið frá flugvelli Mehamn til bæjarins. Lítið er hægt að kvarta yfir veðrinu hér við Barentshafið eftir lendingu í hádeginu í dag, svalt og sólríkt. Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

Hitastigið í Mehamn í Finnmörku er um níu gráður þegar stigið er út úr flugvélinni frá Hammerfest á sumarsólstöðum eftir lendingu á einu flugbraut Mehamn-flugvallar, þangað sem ellefu áætlunarflug koma að jafnaði hvern virkan dag og jafnmörg yfirgefa svæðið. Á sunnudögum eru flugin aðeins fimm svo betra er að missa ekki af fluginu sínu eigi maður miða á sunnudegi. Öllu lengra norður verður ekki komist á meginlandi Evrópu. Næsta borg með sex stafa tölu í íbúafjölda er Murmansk í Rússlandi, þangað er jafnlangt héðan í loftlínu og frá Reykjavík til Húsavíkur, 300 kílómetrar.

Mehamn, hluti af sveitarfélaginu Gamvik í Finnmörku. Hér og á …
Mehamn, hluti af sveitarfélaginu Gamvik í Finnmörku. Hér og á þéttbýlissvæðinu sem aðgreint er með nafninu Gamvik búa samtals um 1.150 manns, þar af nálægt 50 Íslendingar sem sækja sjóinn sem aldrei fyrr. Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

Ekki er hlaupið að því að ferðast frá höfuðborginni Ósló, þar sem hitastigið í dag var töluvert hærra, hingað í svala loftið. Það kostar einar þrjár millilendingar á tæpum fimm klukkustundum en er ágætur valkostur fyrir þá sem vilja ekki aka stystu leiðina frá Ósló, 2.023 kílómetra. Áhugasamir geta þó valið um lengri leiðir.

Mehamn ber reyndar annað heiti, samíska heitið Donjevuotna. Þótt samíska sé reyndar opinbert tungumál um allan Noreg heyrist hún sjaldnast annars staðar en í tveimur nyrstu fylkjum landsins. Hér við Mehamn spóka stórar hreindýrahjarðir sig á beit við vegina, þar á meðal rétt fyrir utan flugstöðvarbygginguna. Á haustin koma hinir samísku, halda réttir, merkja dýrin og velja út þau sem leiða skal til slátrunar.

Kringum Norðra kaldan veldisstól

Íslendingar hafa fæstir farið varhluta af harmleik í endaðan apríl þar sem íslenskur sjómaður í blóma lífsins, Gísli Þór Þórarinsson, varð sveitungum sínum hér við gin Barentshafsins harmdauði eftir heimsókn hálfbróður sem hefur játað á sig verknaðinn og bíður nú ákæru og síðar dóms. Sá hryggilegi atburður verður leiðarstefið og grundvöllurinn að þeim viðtölum sem hér munu birtast næstu daga, en ekki síður verður gerð einhvers konar tilraun til að varpa örlitlu ljósi á samfélag í nyrsta kima Evrópu. Samfélag sem af einhverjum, vafalaust gildum, ástæðum hefur dregið að sér hóp íslenskra sjómanna sem fast sóttu sjóinn og sækja hann enn, eins og einhvers staðar segir.

Kjøllefjord í sveitarfélaginu Lebesby, 36 kílómetra frá Meham. Héðan ók …
Kjøllefjord í sveitarfélaginu Lebesby, 36 kílómetra frá Meham. Héðan ók lögreglan aðfaranótt 27. apríl í útkall eftir að Gísli Þór heitinn var skotinn. Varnargarðarnir eru hvort tveggja til höfuðs grjóthruni og snjóflóðum. Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

Takist þetta ætlunarverk, jafnvel bara að hluta, verða millilendingarnar þrjár fullkomlega þess virði enda verða þær sex í heildina þegar leiðangrinum lýkur á sama stað og hann hófst, Gardermoen-flugvellinum í Ósló.

Ekki eru atburðir á heimsfréttasviði daglegt brauð í norsku sjávarþorpi sem á sér samanlagt um 1.150 íbúa miðað við nýjustu tölur. Einn slíkur varð þó 11. mars 1982 þegar „Mehamn-slysið“ svokallaða, Mehamn ulykken, varð. Þá hrapaði de Havilland Canada DHC-6 Twin Otter-farþegavél Widerøe-flugfélagsins úti fyrir Gamvik og fórust allir um borð, 15 manns. Rannsókn slyssins varð með þeim umfangsmeiri og fjallaði Stórþingið um lokaskýrslu rannsóknarnefndar flugslysa árið 2006, endanleg niðurstaða að bilun í hæðarstýri hefði leitt til þess að vélin tók dýfu sem flugmennirnir náðu ekki að leiðrétta áður en hún skall á haffletinum. Ekki var þá MCAS-búnaði um að kenna sem verið hefur fréttaefni nú nýverið.

Nyrsta hótel meginlandsins

Brigður voru bornar á þessa skýringu löngu eftir slysið, í nóvember 2002, þegar Brennpunkt, fréttaskýringaþáttur norska ríkisútvarpsins NRK, birti þær upplýsingar að sjómaður hefði fundið hluta af stéli breskrar orrustuflugvélar á grynningum skammt frá slysstaðnum, en heræfing Atlantshafsbandalagsins NATO stóð yfir á svæðinu þegar vél Widerøe fór í sjóinn og var jafnvel talið að farþegavélin hefði fyrir handvömm flugumferðarstjóra eða flugmanna verið innan flugbannsvæðis sem gilti meðan á æfingunni stóð og vélarnar rekist saman. Ekkert varð sannað í þessum efnum 20 árum eftir atburðinn og stóð fyrrnefnd skýring óhögguð.

Í Mehamn er að finna nyrsta hótel á evrópsku fastlandi, Mehamn Arctic Hotell, sem býður upp á 32 uppábúin rúm í 16 herbergjum, danssal, sjónvarpsstofu og arinstofu, sem líklega er ekki vanþörf á í fylki þar sem lægsta hitastig mældist 51,4 gráður neðan við núllið í Karasjok á nýársdag 1886. Á þessum slóðum þykir 30 stiga frost ekki merkilegra en næðingssamt vor í Reykjavík.

Hreindýrahjörð á beit við flugvöllinn í Mehamn í mestu spekt.
Hreindýrahjörð á beit við flugvöllinn í Mehamn í mestu spekt. Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

Þá má nefna að Finnmerkurfylki er heimsþekkt í kreðsum laxveiðimanna og fáar nautnir innvígðra taldar taka því fram að þreyta þann bleika í stórbrotinni náttúru. Eins nýtur sjóstangveiði vinsælda í nágrenni við Mehamn. Að jafnaði hafast um 5.000 hreindýr við að sumarlagi á Nordkinn-sléttunni þar skammt frá auk þess sem vitinn á Slettnes dregur að sér ferðamenn árið um kring. Þeir, sem vilja upplifa að standa á nyrsta landfasta punkti Evrópu, geta brugðið sér til Kinnarodd, örstutt frá Mehamn, en stórir hópar ferðamanna sækja þó Nordkapp árið um kring til að komast sem nyrst. Þar er þó ekki um landfastan punkt að ræða heldur eyju.

Áherslan hér verður þó á Mehamn næstu daga, mannlífið og það sem hér gerðist í endaðan apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka