Hluta Ártúnshöfða og Elliðaárvogs verður umbreytt úr iðnaðarhverfi í blandaða byggð fyrir íbúðir, þjónustu og þrifalega atvinnustarfsemi á næstu árum. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, Ingvi Jónasson, framkvæmdastjóri Klasa ehf., og Pétur Árni Jónsson, framkvæmdastjóri Heildar, skrifuðu undir samkomulög um uppbyggingu á svæðinu í hádeginu en gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á næsta ári.
Lóðirnar sem samkomulagið nær til eru um 10 hektara og í dag er aðeins hluti þeirra nýttur fyrir byggingar. Miðað við fyrirliggjandi nýtingarhugmyndir er áætlað að byggingarmagn ofanjarðar á lóðunum verði um 247.000 m2 og þar af 180.000 m2 fyrir íbúðarhúsnæði og 67.000 m2 fyrir atvinnuhúsnæði.
Rammaskipulag hefur verið unnið fyrir hverfið og við vinnslu þess var meðal annars fundað með lóðarhöfum í hverfinu og áhugi þeirra til samstarfs við borgina um uppbyggingu í hverfinu kannaður.
Fyrir liggur áætlun um áætlað byggingarmagn á svæðunum við Ártúnshöfða þar sem meðal annars er byggt á því að nýtingarhlutfall næst fyrir fyrirhugaðri borgarlínu, sem verður samgönguás hverfisins, verði hátt í samræmi við þann þéttleika sem gert er ráð fyrir í áætlunum borgarinnar um uppbyggingu borgarlínunnar.
Lóðarhafar munu taka þátt í kostnaði við nauðsynlega uppbyggingu innviða hverfisins með greiðslu gjalda umfram gatnagerðargjald. Áætlað er að fullbyggt hverfi geti rúmað allt að 13.000 íbúa auk ýmis konar þjónustu og atvinnustarfsemi. Fyrirhuguð borgarlína mun ganga í gegnum mitt þróunarsvæðið og renna enn frekar stoðum undir þessa uppbyggingu.
Miðlæg staðsetning Ártúnshöfða og áhersla á öflugar almenningssamgöngur mun því stytta vegalendir innan borgarinnar og styðja við umhverfisvæna þróun Reykjavíkurborgar með þéttri og nútímalegri borgarþróun, að því er segir í tilkynningu frá borginni.
Gert er ráð fyrir blandaðri byggð og fjölbreyttu íbúðaformi þar sem tekið er mið af en samningsmarkmiðum Reykjavíkurborgar um að 20% íbúða skuli vera leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, búseturéttaríbúðir og/eða íbúðir fyrir aldraða að meðtöldum kauprétti Félagsbústaða á 5% íbúða á fyrirframgefnu fermetraverði.
Framkvæmdir við uppbygginguna á svæðinu eru í áætlaðar í fimm ára fjárhags- og fjárfestingaráætlun borgarinnar og gert er ráð fyrir að deiliskipulag fyrir fyrstu áfanga liggi fyrir til kynningar í lok þessa árs. Framkvæmdir gætu því hafist á árinu 2021.