Óbreytt afköst þrátt fyrir styttri vinnuviku

Vinnuvika hefur verið stytt í tilraunaskyni á sumum vinnustöðum borgarinnar.
Vinnuvika hefur verið stytt í tilraunaskyni á sumum vinnustöðum borgarinnar. mbl.is/Hari

Afköst hafa haldist óbreytt hjá þeim vinnustöðum Reykjavíkurborgar sem taka þátt í tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar. Þetta er meðal þess sem fram kemur í úttekt borgarinnar á verkefninu, sem hófst árið 2015.

Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts og skrifstofa Barnaverndar voru fyrstu tveir vinnustaðirnir sem þátt tóku í tilraun um styttingu vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg en síðar bættust í hópinn heimaþjónusta og heimahjúkrun í efri byggðum, hverfastöð austur, hverfastöð vestur, Leikskólinn Hof og Þjónustumiðstöð borgarlandsins.

Vinnuvika var upphaflega stytt um fimm klukkustundir, úr 40 í 35 stundir, en síðar dregið í land og er vinnuvika nú 37 stundir.

Reykjavíkurborg hefur látið Félagsvísindastofnun Háskólans framkvæma kannanir til að meta áhrif styttingar á starfsfólk og er niðurstaðan sú að hún hefur haft jákvæð áhrif á líðan starfsmanna, starfsanda og vinnuálag.

Athygli vekur þó að veikindadögum starfsmanna hefur ekki fækkað, eins og vonir stóðu til, heldur þvert á móti fjölgað. Í tilkynningu frá borginni segir að það sé í samræmi við almenna þróun í þjóðfélaginu, en í nýlegri skýrslu segir að veikindadögum í íslenskum fyrirtækjum hefur fjölgað frá árinu 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert