Segir Ólaf viðurkenna geðþóttaákvörðun

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir Ólaf Reimar Gunnarsson, fráfarandi …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir Ólaf Reimar Gunnarsson, fráfarandi formann stjórnar LV, hafa viðurkennt að ákvörðun um vaxtahækkun hafi verið geðþóttaákvörðun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir í samtali við mbl.is að Ólafur Reimar Gunnarsson, fyrrverandi stjórnarmaður í VR og fráfarandi formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, hafi greint frá því í málflutningi sínum að það hafi verið geðþóttaákvörðun þegar ákveðið var að hætta að miða vexti við markaðsvexti.

„Sú leið sem er farin hjá sjóðnum heldur hvorki vatni né vindum og er einfaldlega geðþóttaákvörðun stjórnarmanna sem að töldu og hafa viðurkennt – þeir töldu einfaldlega samkvæmt sinni tilfinningu – að vextir á þessum lánum og vextir almennt væru bara orðnir of lágir. Þetta hefur komið fram í málflutningi Ólafs,“ segir Ragnar Þór.

Hvar er fjármálaeftirlitið og neytendastofa?

„Hvar er fjármálaeftirlitið og neytendastofa sem ætti að taka í taumana? […] Hver er staða þessa fólks og neytenda með lán á breytilegum vöxtum þegar stjórnin getur breytt forsendum í miðri á,“ spyr formaðurinn.

„Fólk sem tekur lán á breytilegum vöxtum í góðri trú um að kostnaður lækki við lánið þegar markaðsvextir lækka og taka áhættu á því að þegar markaðsvextir hækka getur kostnaður hækkað,“ útskýrir hann.

„Við teljum að stjórnin hafi unnið mjög freklega gegn markmiðum lífskjarasamninganna sem voru undirritaðir af Samtökum atvinnulífsins og verkalýðshreyfingunni.“

Var kjörin til bráðabrigða

„Þessi stjórn sem fer frá núna var kjörinn til bráðabirgða. Hún var búin að sitja í þrjú ár og við ætluðum að fara í formlegt val á stjórnarmönnum núna í haust þegar að nýjar reglur um skipun stjórnar tekur gildi hjá lífeyrissjóðnum,“ segir formaðurinn.

Hann bendir jafnframt á að hinar nýju reglur hafi verið gerðar samkvæmt samkomulagi sem undirritað var af Samtökum atvinnulífsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert