Undirbúa friðlýsingu í Garðabæ

Búrfellsgjá við Heiðmörk er í landi Garðabæjar.
Búrfellsgjá við Heiðmörk er í landi Garðabæjar. Ljósmynd/Garðabær

Umhverfisstofnun hefur kynnt áform um friðlýsingu tveggja svæða í Garðabæ. Annað svæðið nær yfir eldstöðina Búrfell, Búrfellsgjá og Selgjá og er friðlýsing í samstarfi við Garðabæ og landeigendur. Hins vegar er um að ræða stækkun fólkvangsins Hliðs en hann var friðlýstur 2002.

Hlið er útivistarsvæði á Álftanesi og segir í tilkynningu frá Stjórnarráðinu að fjaran og aðliggjandi sjávarsvæði séu sérstaklega áhugaverð til náttúruskoðunar. Aðgengi að svæðinu sé gott og markmið útvíkkaðrar friðlýsingar að tryggja að svæðið nýtist betur til útivistar og almenningsnota.

Búrfell er nútímaeldstöð, sem úr hefur runnið mikið hraun og voru menningarminjar á svæðinu friðlýstar með þjóðminjalögum 1964. Svæðið er vinsæll viðkomustaður ferðamanna, bæði innlendra og erlendra, og inniheldur þónokkrar fornminjar svo sem Gjáarétt í vesturenda Búrfellsgjár, fyrirhleðslur, Réttargerði og vatnsbólið Vatnsgjá.

Nánari upplýsingar um friðlýsingarnar má finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar hér og hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka