Umhverfisstofnun hefur greint frá áformum um friðlýsingu Dranga á Ströndum, en samkvæmt tilkynningu stofnunarinnar er markmið friðlýsingarinnar að viðhalda fjölbreyttu landslagi, vernda vistkerfi og tryggja að „núlifandi og komandi kynslóðir geti notið einveru og náttúru svæðisins án truflunar af umfangsmiklum mannvirkjum og umferð vélknúinna farartækja.“
Áformin eru kynnt í samstarfi við landeigendur og sveitarfélagið Árneshrepp. Jörðin drangar er yfir 100 ferkílómetrar að flatarmáli og nær frá hábungu Drangajökuls að sjó á milli Bjarnarfjarðar og Drangavíkur.
Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að Drangar séu landnámsjörð hvar Eiríkur rauði bjó að föður sínum látnum og má færa líkur að því að þar hafi sonur hans, Leifur Eiríksson heppni, fæðst.
Verið er að kynna áformin öðru sinni vegna formgalla, en þar sem svæðið er ekki á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár þarf að kynna það sérstaklega.
Frestur til að skila athugasemdum við áformin er til og með 23. ágúst næstkomandi og í kjölfar kynningartímans verða unnin drög að friðlýsingarskilmálum sem lögð verða fyrir rétthafa lands og aðra hagsmunaraðila.